139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Tilefni þessarar umræðu er úrskurður Hæstaréttar Íslands um kosningar til stjórnlagaþings en rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að kosningin væri ólögleg, hún stæðist ekki lög. Þetta er mjög alvarlegt mál. Þetta mál snýr að almannahag. Þetta mál snýr að okkur sem skattgreiðendum, þetta mál snýr að lýðræðinu, þetta snertir einstaklinga sem í hlut eiga. Hvernig sem á málið er litið þá er það stórt í sniðum og það er fullkomlega eðlilegt að spurt sé um ábyrgð.

Í mínum huga er eðlilegt að beina sjónum að þremur aðilum í því efni. Í fyrsta lagi að Hæstarétti sjálfum. Niðurstaða hans eða úrskurður verður ekki vefengdur. Niðurstöðunni verður að sjálfsögðu hlítt, hún er óvefengjanleg. Það er grundvöllur réttarríkisins að fara að niðurstöðu Hæstaréttar í hvívetna þannig að það skal ekki dregið í efa að við munum hlíta þessari niðurstöðu að sjálfsögðu.

Það þýðir ekki að Hæstiréttur fremur en aðrar stofnanir í samfélaginu eða önnur mannanna verk séu hafin yfir gagnrýni enda fer nú fram eðlileg umræða í þjóðfélaginu í hópi lögspekinga og í samfélaginu almennt og eðlilegt að það gerist líka innan veggja Alþingis um niðurstöðu Hæstaréttar og lögin sem hann byggir sinn úrskurð á. Það er eitt sem má gagnrýna í lagasetningu um stjórnlagaþingið og það er hve óljós lögin eru um aðkomu Hæstaréttar og hvernig skuli farið með kærur sem fram kunna að koma. Kveðið er á um þetta í 15. gr. laganna en að öðru leyti segja lögspekingar mér að eðlilegt sé að taka tillit til almennrar lagasetningar hvað þetta snertir og hefur t.d. prófessor í lögum við Háskóla Íslands, Eiríkur Tómasson, vísað til 120. gr. almennra kosningalaga þar sem kveðið er á um hvernig fara skuli með kærur sem fram koma en þar er vísað til þess að komi fram gallar sem hafi haft áhrif á úrslit kosninga þá sé komin upp staða til að vefengja úrslitin.

Í þessu tilviki komu ekki fram slíkir gallar eða slíkar kærur. Framkvæmd kosninganna var ekki kærð á slíkum grundvelli og ekkert slíkt kom fram sem bendir til þess að úrslit kosninganna hefðu orðið á annan veg ef framkvæmdin hefði orðið önnur. (Gripið fram í: Hvernig vitum við það?) Þess vegna segi ég að það kom mér á óvart að í ljósi ríkra almannahagsmuna skuli Hæstiréttur hafa komist að þessari niðurstöðu. En ég ítreka að við hlítum niðurstöðunni en ég tók eftir því (Gripið fram í: Það er merkilegt.) að formaður Sjálfstæðisflokksins barði í borðið þegar ég leyfði mér að ræða þessi mál, þau lög sem Hæstiréttur úrskurðar (Gripið fram í.) samkvæmt (Gripið fram í.) og þær forsendur sem hann gefur sér — og ég frábið mér allar tilraunir til að þagga lýðræðislega umræðu um þetta alvarlega mál. (Gripið fram í: Hver er að því?) (Gripið fram í.) Þetta er fyrsti aðilinn sem við beinum sjónum okkar að þegar við ræðum um hver eigi að bera ábyrgð (Gripið fram í: Það eruð þið sem berið ábyrgðina.) og axla ábyrgð.

Í öðru lagi horfum við til löggjafans. Við horfum til okkar sjálfra sem erum ábyrg fyrir lögunum sem framkvæmdin byggðist á. Lagafrumvarpið var undirbúið í forsætisráðuneytinu með aðkomu og í samráði við fulltrúa allra flokka sem eiga sæti á Alþingi. Síðan fór málið til umfjöllunar á þinginu, fór í allsherjarnefnd þingsins. Ég þekki vel gang mála þar því að ég sat þar og síðan var frumvarpið samþykkt með breytingum og með einu mótatkvæði. Einn alþingismaður, hv. þm. Óli Björn Kárason, greiddi atkvæði gegn, (Gripið fram í: Hve margir með?) Sjálfstæðisflokkurinn sat hjá en ekki vegna gagnrýni á lögin sem slík heldur fyrst og fremst, menn geta bara skoðað umræðu um málið, (Gripið fram í.) vegna gagnrýni á stjórnlagaþingið og fyrirkomulagið sem við vorum að innleiða. Ég vek athygli á þessu vegna þess að úrskurður Hæstaréttar byggir á framkvæmd laganna og lögunum sem starfað var eftir. Ég vek athygli þingsins á því að við í þessum sal þurfum að axla ábyrgð. Það er eðlilegt að horft sé til okkar vegna þess að fundið er að því að ósamræmi hafi verið í lögunum um stjórnlagaþing annars vegar og almenn kosningalög hins vegar þar sem kveðið er á um framkvæmd kosninga.

Í þriðja lagi er eðlilegt að horft sé til framkvæmdaraðilanna, þeirra sem höfðu með kosningarnar að gera. Hverjir voru það? Það var dómsmála- og mannréttindaráðuneytið þáverandi, það var landskjörstjórn sem í þessum kosningum fékk umfangsmeira hlutverk en í almennum þingkosningum. Hún auglýsti kosningarnar, tók við framboðum, úthlutaði auðkennistölum og á hennar vegum fór talningin fram. Síðan voru það sveitarfélögin sem önnuðust framkvæmd kosninga og umfram lagaskyldu kom dómsmálaráðuneytið vissulega að ráðgjöf gagnvart sveitarfélögunum að þeirra beiðni, eins og ég mun gera nánar grein fyrir í máli mínu. Ég ítreka það að vegna þess hve málið er í rauninni alvarlegt eigum við að ræða alla þætti þess. Allt á að þola ljósið, allt. Ég frábið mér allar tilraunir til þöggunar eins og mér heyrist ég kenna á frammíköllum frá tilteknum aðilum í salnum.

Sú nýbreytni var samþykkt í þessum lögum að kjörskráin skyldi sett á rafrænt form og notuð þannig við atkvæðagreiðsluna. Þetta var lagt upp með í upphafi. Frá þessu var síðan horfið, eins og allsherjarnefnd og Alþingi þekkir, eftir áhættumat sem framkvæmt var og í samráði við sveitarfélögin sem formlega fóru þess á leit við okkur í stjórnsýslunni og sem fórum með framkvæmdarvaldið að horfið yrði frá þessu vegna kostnaðar og hversu erfitt þetta væri í framkvæmd. Þetta þekkir allsherjarnefnd vel og gerði enginn athugasemd við það.

Í undirbúningsvinnunni var ákveðið að gera ýmsar breytingar á lögunum og við skulum ekki gleyma því að við erum að feta okkur út á algerlega nýjar brautir. Við erum með persónukjör, 522 einstaklingar voru í framboði og ýmsu sem Alþingi varð að breyta eftir því sem framvinda varð. (Gripið fram í: Höfðu varnaðarorð …?) Til dæmis voru þau sjónarmið uppi í allsherjarnefnd á sínum tíma að við skyldum hafa alla frambjóðendur á kjörseðlinum sjálfum en ekki númer eins og reyndin varð en frá því var horfið þegar í ljós kom að 522 einstaklingar voru í framboði, að það væri óframkvæmanlegt og þess vegna varð það sameiginleg niðurstaða allsherjarnefndar og sameiginleg niðurstaða Alþingis að hverfa frá því fyrirkomulagi.

Dómsmálaráðuneytið stóð síðan að kynningu á frambjóðendum. Enginn hefur fundið að því og ætla ég ekki að fara neinum orðum um það en vil vekja athygli á því gríðarlega starfi sem unnið var á vegum ráðuneytisins í þessum efnum, gríðarlega starfi, og hve vel í raun tókst til um þá þætti. Ætla ég nú að víkja að ýmsum athugasemdum Hæstaréttar sem fram koma í úrskurði hans og varða framkvæmd kosninganna.

Í fyrsta lagi það sem snýr að auðkenningu kjörseðla. Varðandi auðkenningu kjörseðla segir í niðurstöðu Hæstaréttar að við ákvörðun á því hvernig auðkenningu kjörseðla skyldi hagað á grundvelli 2. mgr. 10. gr. laganna um stjórnlagaþing varð að taka fullt tillit til þess að samkvæmt 4. gr. sömu laga skyldi kosning vera leynileg. Kjörseðill mátti ekki vera rekjanlegur til kjósenda. Telur Hæstiréttur að sú ákvörðun ráðuneytisins að hafa á kjörseðli númer sem voru í samfelldri hlaupandi töluröð hafi gefið möguleika á að rekja kjörseðil til kjósenda og því farið í bága við ákvæði 4. gr. laganna um stjórnlagaþing um að kosningin skyldi vera leynileg. Hæstiréttur vitnar til 2. mgr. 10. gr. laganna um stjórnlagaþing en samkvæmt þeirri grein skyldi dómsmálaráðuneytið sjá um gerð og prentun kjörseðla. Voru kjörseðlar gerðir í samræmi við þau fyrirmæli sem gefin voru í 2. mgr. 10. gr. og var á bakhlið þeirra að finna auðkennistákn seðilsins.

Hvers vegna var sett auðkennistákn á kjörseðil? Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið sem varð að hinni nýju 2. mgr. 10. gr. hafði landskjörstjórn gert athuganir við framkvæmd rafrænnar talningar einkum á Englandi, Skotlandi og Írlandi. Í þeirri athugun kom fram að forsenda slíkrar rafrænnar talningar væri að kjörseðillinn hefði sérstakt tákn sem bundið væri við kjörseðilinn sjálfan og ekki er rekjanlegt til kjósenda. Með þessu ákvæði væri tekinn af allur vafi um heimild til að auðkenna kjörseðla sérstaklega fyrir hina rafrænu talningu. Þá væri með slíku auðkenni mögulegt að staðreyna að ekki væru aðrir kjörseðlar í umferð en þeir sem dómsmálaráðuneytið léti prenta fyrir kosningarnar.

Við talninguna sjálfa væri unnt að kalla fram mynd af seðlinum t.d. við afstemningu, við færslu umframatkvæða og atkvæða sem ekki hefðu nýst við fyrsta val kjósenda og með auðkenni væri mögulegt að finna kjörseðil sem ágreiningur kynni að vera um og að ganga úr skugga um að ekki væru vankantar á hinni rafrænu talningu. Landskjörstjórn hafði samið við fyrirtækið Skyggni um að annast talningu og uppgjör kosninganna. Þegar kom að gerð kjörseðilsins fól ráðuneytið í samvinnu við landskjörstjórn Skyggni að gera og láta prenta kjörseðilinn enda tók gerð hans mið af því að um rafræna talningu atkvæða yrði að ræða.

Að rekja kjörseðil til ákveðins kjósanda er mjög flókið. Til þess þyrfti einhver að hafa búið yfir upplýsingum um auðkennisnúmer kjörseðils tiltekins kjósanda og hafa aðgang að gagnagrunni landskjörstjórnar um kosningarnar því kjörseðlar voru allir taldir á einum og sama staðnum. Til að leita í gagnagrunninum þyrfti svo sérþekkingu til að finna viðkomandi seðil. Hafi menn slíka þekkingu skiptir litlu hvort auðkennið sé eftir tiltekinni númeraröð eða á flóknara formi.

Vík ég þá að gerð kjörklefa. Varðandi kjörklefa telur Hæstiréttur að þau pappaskilrúm sem hönnuð voru á vegum ráðuneytisins til notkunar í stað hefðbundinna kjörklefa hafi ekki uppfyllt skilyrði til að teljast kosningaklefi í skilningi laganna um kosningar til Alþingis. Skilrúmin hefðu ekki afmarkað það rými sem kjósenda væri eftirlátið til að kjósa með þeim hætti að hann væri þar í einrúmi né að þar mætti greiða atkvæði án þess að aðrir gætu séð hvernig kjósandi kaus þar sem unnt var að sjá á kosningaseðil ef einhver stæði fyrir aftan kjósanda sem sæti við skilrúmin að fylla út kjörseðil. Hæstiréttur féllst á þá röksemd að sá háttur sem hafður var á kosningunni um að hver kjósandi hefði fjögurra stafa auðkennistölu sem rituð var á kjörseðilinn hafi að nokkru verið til þess fallin að viðhalda leynd um efni kjörseðilsins þótt á hann sæist. Hins vegar var ekki hægt að fullyrða að það fyrirkomulag hafi nægt til að viðhalda leynd í öllum tilvikum. Þá telur Hæstiréttur einnig rétt að hafa í huga að reglur um umbúnað kjörklefa er ætlað að tryggja að kosning sé leynileg og frjáls með því að koma í veg fyrir að aðrir geti beint eða óbeint fylgst með og þar með haft áhrif á hvernig kjósandi kýs. Þar sem unnt var að sjá á kjörseðil kjósanda sem nokkurn tíma hlaut að taka að fylla út ef allir valkostir voru notaðir var það til þess fallið að takmarka rétt kjósenda til að nýta frjálsan kosningarrétt sinn ef maður sem hann var háður fylgdist með honum eða kjósandi hafði raunhæfa ástæðu til að ætla að svo gæti verið. Það er sveitarfélaga að bera ábyrgð á gerð og uppsetningu kjörklefa. Margir, þar á meðal ýmsir á vegum sveitarfélaganna, höfðu lýst áhyggjum sínum yfir því að mikil hætta væri á að biðraðir kynnu að myndast á kjörstöðum vegna þess hve kosningaframkvæmdin yrði seinleg.

Tími minn er á þrotum. Ég á eftir að gera ítarlegri grein fyrir þessum þáttum en ég vil vekja athygli þingsins á því að landskjörstjórn fór til Bretlands og víðar að kynna sér þessi mál. Þeir aðilar sem ráðuneytið fékk til ráðgjafar öfluðu upplýsinga hjá grannríkjum okkar, (Forseti hringir.) t.d. Bretum hvað varðar sjálfa kjörkassana og ráðuneytið hafði ráðgjöf um gerð kjörklefanna (Forseti hringir.) þó að því bæri ekki lagaskylda til slíks.

Að lokum vil ég segja, hæstv. forseti, að (Forseti hringir.) ég mun sjá til þess að ítarlegar skýringar um þetta efni verði að finna á vef innanríkisráðuneytisins. Ég hef gert grein fyrir helstu (Forseti hringir.) aðalatriðum málsins en við munum gera rækilega grein fyrir þessu á vef innanríkisráðuneytisins (Forseti hringir.) vegna þess að það er mjög mikilvægt að þetta alvarlega mál fái ítarlega (Forseti hringir.) skoðun hjá öllum sem að því koma.