139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var bara að vísa í orð hv. þingmanns (Gripið fram í.) þegar ég vísaði í pólitíkina (Gripið fram í: Pólitísk …) Hv. þingmaður segir að ég þykist taka málið alvarlega en reyndin sé önnur. Ég er að segja að málið er grafalvarlegt og niðurstaða Hæstaréttar óvefengjanleg. (Gripið fram í: Nú?) Hún er óvefengjanleg og þetta sagði ég, að sjálfsögðu. Hann hefur úrskurðað þessa kosningu ólögmæta og við stöndum frammi fyrir því.

Nú ræðum við hér um hvar ábyrgðin liggur, hvað hafi farið úrskeiðis. Hvar eru brotalamirnar sem við þurfum að laga, m.a. í lagasetningunni? Þar vísa ég til Alþingis sjálfs sem smíðaði lögin. Ég vísa líka til framkvæmdarinnar og horfi til allra framkvæmdaraðila, þar á meðal þess ráðuneytis sem ég er í forsvari fyrir, til landskjörstjórnar, til sveitarfélaganna, til allra aðila. Ég leyfi mér að ræða líka lögin sem Hæstiréttur (Forseti hringir.) grundar ákvörðun sína á og þær forsendur sem hann gefur sér. Má ekki ræða þetta? (Forseti hringir.) Auðvitað á þetta allt að þola opna umræðu, líka af hálfu Sjálfstæðisflokksins.