139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:30]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem betur fer er útlagður kostnaður heldur lægri en hv. þingmaður nefnir en hann er mikill og var ein ástæðan fyrir því að ég talaði um þennan úrskurð sem grafalvarlegan og vísaði þar í almannahag.

Því miður gafst mér ekki tími til að lesa nógu mikið og rækilega upp úr greinargerð Hæstaréttar og greinargerð ráðuneytisins sem ég vísaði í og er mjög góð, efnisleg og nákvæm. Ég gat um að ég mundi koma henni rækilega á framfæri.

Núna bíður okkar að skilgreina hvar ábyrgðin liggur og við erum að ræða það hér. Við þurfum að gera það sem löggjafi líka vegna þess að það fór sitthvað úrskeiðis við lagasetninguna. Eins og ég gat um rímaði löggjöfin um stjórnlagaþingið að mati Hæstaréttar ekki alls kostar við almenna kosningalöggjöf í landinu, enda erum við að feta nýjar brautir. Við þurfum að draga réttan lærdóm af því. Næst þegar við göngum til samsvarandi kosninga þá (Forseti hringir.) þurfum við að gera þar bragarbót á og á öðru í framkvæmdinni sem ég vék að í máli mínu.

Varðandi sveitarfélögin og ráðuneytið þá nefndi ég (Forseti hringir.) aðkomu ráðuneytisins umfram lagaskilning til aðstoðar við sveitarfélögin og ég gat um (Forseti hringir.) á hvaða forsendum það væri gert.