139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að rifja það upp með hæstv. ráðherra að við sátum saman í allsherjarnefnd þegar þessi lög voru smíðuð og ráðherrann veit það manna best að sú sem hér stendur gagnrýndi frumvarpið frá upphafi og alla leið, líka þegar var verið að breyta því á síðustu metrunum.

Ráðherrann bregður á það ráð að svara ekki þeirri spurningu minni sem ég bar fram og ber ég hana því fram aftur: Hvað hyggst ráðherrann gera með þau kjörbréf sem þegar hafa verið gefin út á þessa 25 einstaklinga þar sem úrskurður Hæstaréttar stendur og hæstv. ráðherra fór vel inn á það?

Hann nefnir það sem dæmi að ríkir almannahagsmunir séu fyrir því að þetta mál sé alvarlegt út af því að miklir peningar eru farnir í súginn í þessum kosningum. (Gripið fram í.) Jú, það er rétt. Þessar upplýsingar um upphæðina hef ég frá framkvæmdastjóra undirbúningsnefndar stjórnlagaþings. Þetta er rúmur milljarður. Almannahagsmunir snúast ekki um það, að mati ráðherrans, að um kosningu ráðgefandi stjórnlagaþings er að ræða, enda er tæpast hægt að tala um almannahagsmuni (Forseti hringir.) þegar einungis er um kosningu til ráðgefandi þings að ræða.