139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum nú einhvern mismunandi skilning á hugtakinu afneitun. (Gripið fram í.) Ég fjallaði um ábyrgð mína í þessu máli (Gripið fram í.) sem alþingismanns og sem handhafa framkvæmdarvaldsins, ég fjallaði um það og ég segi við Alþingi: Ábyrgð okkar er mikil vegna þeirra brotalama sem fram hafa komið í lagasmíðinni og við þurfum að draga af því lærdóma fyrir næstu skref sem við stígum. Ég vísa líka í framkvæmdina, hvað það er sem við þurfum að laga þar. Þar hef ég einnig höfðað til ábyrgðar okkar. Við þurfum að axla hana með því að breyta fyrirkomulaginu. Ég hef hins vegar leyft mér að gagnrýna það að kosningin skyldi dæmd ógild með tilliti til almannahagsmuna í ljósi þess að engir ágallar komu fram sem sannarlega hefðu breytt úrslitum hennar. Ég leyfði mér að ræða þetta. (Forseti hringir.) En ég er ekki að víkjast undan ábyrgð. Ég er að horfast í augu við brotalamir sem voru í lögunum og í framkvæmdunum og segja: Við þurfum að (Forseti hringir.) bæta úr þeim.