139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Málið snýst á þessu stigi fyrst og fremst um ábyrgð. Héðan frá þinginu, frá ríkisstjórn ætti með réttu að tala til þjóðarinnar og biðjast afsökunar á klúðrinu sem varð. Þess í stað kýs innanríkisráðherrann, yfirmaður dómsmála í landinu, að nota ræðutíma sinn á Alþingi til að færa rök fyrir því að Hæstiréttur hafi komist að rangri niðurstöðu.

Fyrir Hæstarétti gafst kærendum í málinu tækifæri til að flytja mál sitt og tveir þeirra gerðu það. Þar gafst innanríkisráðuneytinu líka tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri sem og landskjörstjórn og þau gerðu það. Þau sjónarmið sem ráðherrann er að kynna hér hafa komið fram í Hæstarétti í munnlegum málflutningi, væntanlega, og þeim var hafnað. Sex dómarar voru sammála um að þessi sjónarmið leiddu ekki til þess að kosningin ætti að standa heldur þvert á móti að hana bæri að ógilda. Samanlagt leiddu öll þau fjölmörgu atriði sem kært var vegna til þess að óhjákvæmilegt væri að ógilda kosninguna. Þetta harmar innanríkisráðherrann á þeirri forsendu að gallarnir við framkvæmdina hafi ekki haft áhrif á niðurstöðuna.

Veltum því aðeins fyrir okkur. Hvernig getur innanríkisráðherrann staðið hér og sagt það blákalt að allir þessir ágallar hafi engin áhrif á niðurstöðuna? Hefur það að mati ráðherrans engin áhrif almennt séð að kosningar séu ekki leynilegar? Það er niðurstaða þessa úrskurðar. Þegar kærendur í málinu telja fram fjölmörg atriði sem eru grundvallaratriði við leynilegar kosningar, eins og t.d. hvernig kjörklefanum er hagað, hvernig kjörkassarnir eru, að menn hafi rétt til að brjóta saman kjörseðla, að kjörseðlarnir séu ekki númeraðir, slær ráðherrann öll þau atriði út af borðinu og segir: Þetta skiptir engu máli vegna þess að það hafði engin áhrif á niðurstöðu kosninganna.

Fleira mætti telja til af kæruatriðum kærendanna þriggja sem varpa slíkum vafa á niðurstöðu kosninganna í heild sinni að það er ómögulegt fyrir nokkurn mann að halda því fram að gallarnir í málinu hafi engin áhrif haft og minnsti vafi um að gallar við framkvæmd kosninga hafi haft áhrif á niðurstöðuna á að leiða til þess að hún sé ógild.

Að öðru leyti ætla ég einfaldlega ekki að taka þátt í því sem innanríkisráðherrann býður upp á hér sem er einhvers konar málflutningur fyrir þjóðinni gegn Hæstarétti. Niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir í málinu. Hana ber að virða. Maður getur ekki sýnt virðingu sína fyrir niðurstöðunni í verki með því að gera eins og hæstv. ráðherra sem í öðru orðinu segir að við þurfum að virða niðurstöðuna, hún sé alveg skýr og að við eigum að draga lærdóm af henni, en í hinu orðinu gagnrýnir hann allar helstu forsendur niðurstöðunnar. Hvaða virðingu ber ráðherrann fyrir niðurstöðunni þegar hann er ósammála henni í öllum meginatriðum?

Þetta er í fyrsta sinn sem almennar kosningar eru dæmdar ógildar hér á landi. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa mælt í dag og bent á þvílíkur álitshnekkir það er fyrir okkur sem lýðræðisríki að það skuli hafa gerst. Það er afar dapurlegt og eftir því tekið víða um lönd að almennar kosningar á Íslandi skyldu dæmdar ógildar. Af hverju skyldi ekki hafa tekist að setja lög og reglur og framkvæma þær síðan með þeim hætti að það stæðist skoðun? Það ætlar enginn að bera fulla ábyrgð á þessu eins og ég skil málflutning ráðherranna. Það viðurkennir enginn ákveðin mistök. Menn keppast við að útskýra fyrir þingheimi og þjóðinni að þrátt fyrir allt skipti þetta engu máli. Það er engin auðmýkt sýnd og ég kalla það ekki virðingu fyrir niðurstöðu dómstóla sem fram kom í máli hæstv. innanríkisráðherra.

Hæstv. forsætisráðherra kaus að fara beint í umræðuna um að þegar öllu væri á botninn hvolft væri þetta bara pólitík, að Sjálfstæðisflokkurinn væri hræddur við að stjórnlagaþingið færi fram. Hver er sannleikurinn í því? Hver er sannleikurinn í því að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti því að það fari auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána. Má ég nefna það til vitnis um hver stefna Sjálfstæðisflokksins hefur verið í því máli að í tvígang hefur flokkurinn haft slíkt ákvæði í stjórnarsáttmála. Þegar Davíð Oddsson var forsætisráðherra var það í tvígang í stjórnarsáttmála. Sá sem tók við af Davíð Oddssyni sem formaður Sjálfstæðisflokksins lagði síðan fram frumvarp á Alþingi um að slíkt ákvæði færi í stjórnarskrá. Flokkurinn stendur líka einhuga á bak við niðurstöðu sáttanefndarinnar um framtíð fiskveiðistjórnarkerfisins. Hver er tillaga hennar? Þar var skipaður starfshópur undir forustu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sem komst að þeirri niðurstöðu að við ættum að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrána. Ég hlýt því að spyrja: Hvað vakir fyrir hæstv. forsætisráðherra að fara með þau ósannindi fyrir þjóðina að Sjálfstæðisflokkurinn sé hér á þingi að berjast gegn slíku ákvæði í stjórnarskrá? Það er beinlínis rangt og það hefur verið rangt í meira en 10 ár. Ætli það séu ekki um það bil 15 ár síðan slíkt ákvæði fór í stjórnarsáttmála sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að. (Gripið fram í: Af hverju er það ekki komið í stjórnarskrá?) (Gripið fram í.)

Það hefur verið ágreiningur, frú forseti, um nákvæmt orðalag þessarar greinar en ég fullyrði að þann ágreining er hægt að leiða til lykta í samstarfi flokkanna hér á þingi. Vandinn er bara sá að frá því að þessi ríkisstjórn tók við fyrir síðustu kosningar hefur hún aldrei látið á það reyna. Hún hefur náð vilja sínum fram með ofbeldi og yfirgangi. (Gripið fram í.) Þannig er það. LÍÚ samþykkti ekki niðurstöðu sáttanefndarinnar í sjávarútvegsmálum en það skipti Sjálfstæðisflokkinn engu máli, hann styður niðurstöðuna engu að síður. (Gripið fram í.)

Ráðherrar segja hér að það megi ekki taka þingið af þjóðinni. Hvenær hefur þjóðin verið spurð í þessu máli? (Gripið fram í: Í kosningunum.) Hún var spurð í kosningunum, segja menn, þar sem var lélegasta þátttaka (Gripið fram í.) í sögunni í almennum kosningum á Íslandi, (Gripið fram í.) rúm 30%. Það var afar döpur niðurstaða. Í skoðanakönnun sem var gerð í desember, þar sem borið var undir þjóðina hvaða mál það væru sem brýnast væri að stjórnvöld beittu sér í, þá voru 1,9% þeirrar skoðunar að þetta væri brýnasta málið — 1,9%. Er það virkilega svo að það séu heilum milljarði verjandi eða kannski hálfum í þetta? Hversu miklu á að verja í að koma á ráðgefandi þingi eða einhverri nefnd til að veita þinginu ráðgjöf eða senda til þingsins hugmyndir? Við hér erum stjórnarskrárgjafinn og að mínu áliti liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar og gögn eftir þjóðfundinn, eftir starf stjórnarskrárnefndarinnar og eftir aðra þá vinnu sem ráðist hefur verið í, ég nefni t.d. undirbúningsnefndarinnar fyrir stjórnlagaþingið, fyrir okkur til að taka þetta starf alvarlega og hefja nú þegar á Alþingi endurskoðun stjórnarskrárinnar í samstarfi flokkanna eins og hefur alltaf verið gert á lýðveldistímanum.

Stærsta spurningin, spurningin sem þjóðin spyr sig núna er sú: Hver ætlar að bera (Forseti hringir.) ábyrgð á klúðrinu? Er það svo að þegar (Forseti hringir.) núverandi ráðherrar komust til valda, þeir sem helst (Forseti hringir.) hafa gagnrýnt sem stjórnarandstæðingar ríkisstjórn í hverju málinu á fætur öðru, (Forseti hringir.) að þá sé ábyrgð hugtak (Forseti hringir.) fyrir einhverja aðra?