139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað skiptir það máli sem hv. þingmaður var að telja upp. Ég kom upp til að verja hæstv. innanríkisráðherra vegna þess að hann var sakaður um það af formanni Sjálfstæðisflokksins að hafa sagt ranglega að framkvæmd kosninganna hefði ekki haft áhrif á niðurstöðuna. Þegar hv. þingmaður tekur svo til orða verður hann að geta fært fram einhver rök sem benda til þess að staðhæfing hæstv. innanríkisráðherra sé röng en hann gerði það ekki í ræðu sinni.

Ég kem líka hingað upp til að verja þá afstöðu hæstv. innanríkisráðherra að það sé heimilt að ræða forsendur dóma rétta í landinu. Ég hef ekkert á móti því. Ég tel að það sé jákvætt. Hins vegar segi ég það alveg skýrt, eins og hæstv. innanríkisráðherra hefur sagt, að menn fara eftir niðurstöðu dómsins en allir hafa rétt til að hafa skoðanir á forsendum hans.