139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson, að koma hingað upp til að hrósa hv. þm. Róberti Marshall fyrir fyrri hluta ræðunnar sem var fyrsta ræðan sem við höfum heyrt af hálfu ábyrgðarmanna þessa máls, í ríkisstjórn og á Alþingi, sem felur í sér einhvers konar viðurkenningu á þeirra eigin ábyrgð í málinu. Þegar hæstv. innanríkisráðherra viðurkennir einhverja ábyrgð í orði kveðnu fylgir að jafnaði löng ræða um það hversu lítilvæg þau atriði eru sem Hæstiréttur telur kosningarnar ógildar út af. En það er önnur saga.

Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að gera athugasemdir við síðari hluta ræðu hv. þm. Róberts Marshalls vegna þess að mér finnst einkennilegt að það sé á einhvern hátt merki um vandamál eina flokksins (Forseti hringir.) sem ekki bar ábyrgð á þessu máli hvernig fór. (Forseti hringir.) Það var einn flokkur sem tók enga ábyrgð á þessu máli (Forseti hringir.) og það fór illa. Á þessi tiltekni flokkur að axla ábyrgð út af því?