139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil eyða þeim misskilningi hjá hv. þm. Róberti Marshall að einhver gleðjist yfir niðurstöðu Hæstaréttar. Þetta er áfall fyrir íslenska þjóð og áfall fyrir okkur öll. Þetta er áfall fyrir lítil börn sem alast upp á Íslandi og hafa hingað til talið sig búa í traustu lýðræðisríki. Þeir sem bera ábyrgð á málinu verða að horfast í augu við það. Það sem er enn verra og gerir mann enn daprari en sjálft klúðrið eru viðbrögð þeirra sem taka þessu af léttúð og segja að þrátt fyrir að mistök hafi orðið við framkvæmdina hafi þau ekki haft nein áhrif á niðurstöðuna. Því sé hægt að horfa á þetta með einhverjum öðrum augum. Það er þetta sem gerir mann dapran. Hv. þingmaður biðst þó fyrstur manna afsökunar á klúðrinu og ber að hrósa fyrir það. Það hefði betur verið tekið þannig á málinu af forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna. Mig langar að beina spurningu til hv. þingmanns: Er ekki lag, fyrst að hv. þingmaður telur að rétt sé að mæta kjósendum með þetta mál, að kjósa til Alþingis?