139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[13:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Grunnar eru gildrur þínar, hv. þingmaður, ef ég hef gengið í eina slíka. Ég gerði nú ekki annað en að spyrja eftir því hvort hv. þingmaður teldi rétt að ljúka ekki umfjöllun um stjórnlagaþing öðru sinni hér á þessu þingi. Ég held að það sé bara til gagns fyrir okkur og umræðuna og verklagið í þinginu að við vitum hver afstaða formanns Framsóknarflokksins er sem hefur sannarlega breytt um áherslur í þessu. Og menn hafa sannarlega rétt til þess.

Mér heyrðist líka formaður Framsóknarflokksins kannski ekki fullkomlega sannfærður lengur um að stjórnlagaþing sé endilega besta leiðin til að ná fram úrbótum á stjórnarskránni. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort það sé rétt og hvort hann sjái hugsanlega fyrir sér aðrar leiðir en stjórnlagaþingið. Ég bið formanninn að óttast það ekki eins og árásir þó að spurt sé að því hvort hann hafi einhver önnur málefnaleg sjónarmið um það með hvaða hætti megi (Forseti hringir.) ná því markmiði.