139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[14:35]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í þessu máli vil ég fá að vera algjörlega skýr. Ég hef stutt stjórnlagaþing, ég hefði helst viljað fá bindandi stjórnlagaþing en ég taldi að ráðgefandi stjórnlagaþing væri betra en ekki neitt. Sú afstaða mín endurspeglaðist í stuðningi mínum við tillögu að ályktun um stjórnlagaþing á flokksþingi framsóknarmanna 2009. Hún hefur endurspeglast í því að ég var flutningsmaður að frumvarpi sem framsóknarmenn lögðu fram um stjórnlagaþing eftir áramótin 2009, og hún endurspeglaðist líka í afstöðu minni þegar ég studdi málið sem þessi kosning til stjórnlagaþings byggðist á.

Það sem ég vil líka taka fram er að þessi afstaða mín er ekki vanhugsuð, afstaða mín byggðist einmitt á vandlega ígrunduðu máli, hún byggðist á mjög vandaðri vinnu innan Framsóknarflokksins. Afstaða Framsóknarflokksins byggist ekki á bankahruninu sjálfu — vinnan við það að leggja fram þessa ályktun um stjórnlagaþing hófst fyrir bankahrunið — heldur byggist hún á reynslu framsóknarmanna af því að reyna að gera grundvallarbreytingar á stjórnarskránni innan Alþingis.

Formaður hóps okkar um íbúalýðræði var fyrrverandi þingmaður og ráðherra, Jón Kristjánsson, sem var formaður nefndar um breytingar á stjórnarskránni og reyndi þar ítrekað að koma í gegn ákvæði sem hefur verið okkur framsóknarmönnum mjög hugleikið, að auðlindir eigi að vera í þjóðareigu, sem er annað frumvarp sem við framsóknarmenn lögðum fram á Alþingi. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir og hefur komið fram að það urðu mjög mikil átök á milli framsóknarmanna og Sjálfstæðisflokksins í því stjórnarsamstarfi og lá á tímabili við að stjórnarsamstarfinu yrði slitið vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins við að þetta ákvæði færi inn í stjórnarskrána.

Ég fagna hins vegar þeim málflutningi sem sjálfstæðismenn hafa viðhaft hér í dag, að þeim hefur snúist hugur í því máli. Ég vona að þeir verið tilbúnir til að styðja tillögurnar frá því stjórnlagaþingi sem mun vonandi taka til starfa, hugsanlega að einhverju leyti í breyttu formi, og líka um styrkingu þrískiptingar valds, að ráðherrar fari af þingi og ýmislegt annað sem ég mundi vilja sjá breytt í stjórnarskránni og einkum um aukið beint lýðræði. En ekki hvað síst, eins og þeir hafa lýst yfir, að þeir séu tilbúnir að styðja, ákvæðið um að auðlindirnar fari inn í stjórnarskrá. (Forseti hringir.)

Ég tel að ég hafi talað mjög skýrt varðandi stuðning minn í þessu máli og á hverju sú afstaða byggist.