139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[14:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það var vissulega áfall að Hæstiréttur skyldi með ákvörðun sinni ógilda þessar kosningar til stjórnlagaþings. Það er áfall að framkvæmdin hafi verið með þessum hætti. Það er ekki bara áfall fyrir okkur sem hér stöndum eða þá sem bera ábyrgð á þessu öllu heldur fyrir alla þjóðina, fyrir Ísland, fyrir börnin sem eru alast upp í þessu landi. Við höfum öll haldið og tölum um það á hátíðarstundum, allir sem hér eru inni hafa minnst á hversu stolt við erum af því að hér sé öflugt lýðræði. Þess vegna eru viðbrögðin hjá ráðamönnum þjóðarinnar við þessu klúðri afskaplega dapurleg. Það er afskaplega dapurlegt að hæstv. innanríkisráðherra skuli í stað þess að nálgast þetta af auðmýkt og biðjast afsökunar á sínu klúðri koma hér upp og segja að vissulega hafi eitthvað ekki verið vel að verki staðið en það hafi enginn skaðast. Því er ég algjörlega ósammála. Ísland hefur beðið mikinn hnekki, álit okkar út á við sem og álit allra íslenskra kjósenda á því með hvaða hætti stjórnvöld halda á málum hefur vissulega skaðað okkur öll. Við getum ekki horft fram hjá því.

Maður verður dapur (Gripið fram í.) í hjarta af að sjá af hve mikilli léttúð fólk hér virðist nálgast þetta grafalvarlega vandamál og þessa grafalvarlegu niðurstöðu. Maður verður dapur í hjartanu af því að sjá það í stað þess menn biðjist afsökunar og læra af reynslunni.

Við sátum hér öll og fjölluðum um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og ætluðum okkur að læra af mistökunum. Hér virðast menn, sem hlæja að því að manni er mikið niðri fyrir út af þessu máli, ekki hafa lært nokkurn skapaðan hlut. Og þar eru fremstir í flokki þeir sem héldu því fram að það væru sjálfstæðismenn einir sem gætu ekki lært neitt. Ég vísa því öllu heim til föðurhúsanna og hvet menn til að reyna að taka þessu alvarlega vegna þess að þetta er gríðarlega alvarlegt mál og ég held að mönnum sé hreinlega ekki ljóst hve mikið tjón hér hefur orðið. Þetta er gríðarlega alvarlegt. Ég tel að menn ættu aðeins að anda með nefinu og reyna að horfa á þetta af yfirvegun og sjá að það dugir ekki að gera lítið úr kærendum vegna þess að þeir eru almennir kjósendur. Allir kjósendur í lýðræðisríki hafa rétt á því að gera athugasemdir við kosningar. Menn eiga ekki að gera lítið úr því og telja að þar séu einhver annarleg sjónarmið að baki, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, gerði hér í ræðu í gær. Það er alvarlegur hlutur að gera slíkt. Svona kemur maður ekki fram í lýðræðisríki. Við eigum að taka þessa hluti alvarlega, ekki bara í öðru orðinu og lýsa svo yfir í hinu að þetta sé nú ekki svo alvarlegt, það hafi enginn orðið fyrir skaða.