139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[14:48]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það var árið 2008 sem Framsóknarflokkurinn setti á fót nefnd til að skoða íbúalýðræði, formaður hennar var Jón Kristjánsson. Sú nefnd skilaði tillögu til flokksþings 2009 sem flokksþingið samþykkti. Sú tillaga gekk út á það að við ættum að setja á stofn stjórnlagaþing sem ætti að koma með nýja stjórnarskrá sem þjóðin mundi greiða atkvæði um í þjóðaratkvæðagreiðslu, svokallað bindandi stjórnlagaþing. Þetta var alveg skýr stefna Framsóknarflokksins á þeim tíma og er enn, við viljum stjórnlagaþing.

Við settum þetta síðan á oddinn í aðdraganda kosninga 2009. Þegar við studdum minnihlutastjórnina var þetta eitt af skilyrðunum fyrir stuðningnum. Það varð úr, eftir miklar umræður hér í þinginu, að setja ætti á stofn stjórnlagaþing, reyndar ráðgefandi. Við framsóknarmenn studdum það, það var mun nær hugmyndum okkar en að hafa ekkert stjórnlagaþing. Það átti að vera ráðgefandi stjórnlagaþing og nú stöndum við í þeim sporum að búið er að dæma kosninguna ógilda.

Að mínu mati er það engum einum að kenna. Er það ekki bara okkur öllum að kenna, bæði þinginu og framkvæmdarvaldinu? Ég veit ekki hvort hægt er að tína einhverja aðra til en mér leiðist að hlusta á þessar sakbendingar og það er sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn sem setur þær fram. Bæði hv. þm. Bjarni Benediktsson og Birgir Ármannsson sögðu hér á sínum tíma, við atkvæðaskýringar, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði komið með tillögur og átt samstarf í allsherjarnefnd um að breyta þessu máli til batnaðar, þetta yrði allt miklu betra eftir það. Þeir studdu ekki þá hugmyndafræði að hafa stjórnlagaþing yfirleitt en þeir hjálpuðu til við að breyta málinu til batnaðar. Ég held að ekki hafi margir, og líklega mjög fáir, getað séð það fyrir að þetta yrði allt dæmt ólögmætt að lokum af Hæstarétti. En þar stöndum við.

Að mínu mati eru tvær leiðir færar, annaðhvort að Alþingi velji þá 25 sem nú þegar hafa verið valdir í sérstaka nefnd sem kemur þá með tillögur um hvernig stjórnarskráin eigi að vera eða að við kjósum aftur og þá með þeim undirbúningi sem verið hefur og bætum úr ágöllunum. Það eru kostir og gallar við báðar þær leiðir. Ef Alþingi velur þessa 25 bara sjálft má segja að það sé eðlilegt, það er mjög sterk vísbending um það frá þjóðinni hverjir eigi að vera í þessari nefnd, það eru þessir 25. Það er líka hægt að færa rök með því að það sé í lagi af því að þetta er ráðgefandi þing, það á að ráðleggja okkur. Mótrökin eru þau að við værum þá kannski að senda einhver skilaboð út í samfélagið um að við værum að sniðganga Hæstarétt sem ég tel reyndar að megi líka færa rök gegn.

Ef við kjósum aftur má segja að það kosti fjármagn, það verður kannski bara að hafa það. En auðvitað er það erfitt fyrir þá sem nú þegar eru kjörnir inn á þetta stjórnlagaþing sem er ólögmætt. En kannski (Forseti hringir.) verðum við bara að gera það þegar upp er staðið. (Forseti hringir.) Ég tel að þessar tvær leiðir séu færar og við eigum að skoða þær báðar mjög vel.