139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[14:51]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Frú forseti. Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að kosning til stjórnlagaþings hafi verið ólögmæt vegna annmarka sem verið hafi á framkvæmd kosningarinnar og lagasetningu þingsins.

Sú niðurstaða er ótvíræð og við hljótum að virða hana hér á löggjafarsamkundunni. Ég geri ekki athugasemdir við þá gagnrýni á einstök framkvæmdaratriði sem kemur fram í rökstuðningi Hæstaréttar og beinist m.a. að auðkenningu og meðferð kjörseðla, skipulagi kjörstaða, umbúnaði kjörklefa, réttindum frambjóðenda o.s.frv., svo að helstu atriði í málflutningi kærenda og Hæstaréttar séu nefnd. Ég tel að færa megi fyrir því gild rök að fyrrnefndum atriðum hafi verið áfátt en í mörgum þessara tilvika var vikið frá ákvæðum laga um kosningar til Alþingis.

Þrátt fyrir að ég leggi þunga áherslu á að niðurstaða Hæstaréttar sé ótvíræð og hana beri að virða er eðlilegt að við metum á gagnrýninn hátt þær forsendur sem Hæstiréttur byggir niðurstöður sínar á. Í því sambandi má taka undir þá gagnrýni sem komið hefur frá lögspekingum á borð við Eirík Tómasson, að Hæstiréttur líti fram hjá ákvæði 120. gr. laga um kosningar til Alþingis þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda.“

Hæstiréttur gerir enga tilraun í rökstuðningi sínum til að færa sönnur á að umræddir gallar á framkvæmd kosningarinnar hafi haft áhrif á niðurstöðu kosninganna. Hæstiréttur gerir heldur ekki tilraun til að vega afleiðingar hinna framkvæmdalegu annmarka gagnvart hagsmunum almennings, skattborgara eða þeirra frambjóðenda sem hlutu kosningu til þingsins en verða nú sviptir umboði sínu. Í því samhengi er jafnframt athyglisvert að velta fyrir sér meginreglu um ógildingu stjórnvaldsákvarðana þar sem kveðið er á um að þegar um er að ræða verulega annmarka á stjórnvaldsákvörðunum þurfi samt að meta hvort þeir annmarkar hafi haft áhrif á niðurstöðuna. Ef talið er að annmarkarnir hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu máls er ekki þörf á ógildingu.

Virðulegi forseti. Í kjölfarið á ákvörðun Hæstaréttar hafa heyrst hugmyndir um leiðir til að vinna úr þessari stöðu. Þar hefur því m.a. verið fleygt að Alþingi geti brugðist við ákvörðun Hæstaréttar með því að skipa þá 25 einstaklinga sem hlutu kosningu til stjórnlagaþings í desember í sérstaka nefnd sem hafi sambærilegt hlutverk og stjórnlagaþinginu var ætlað. Ég tel að sú leið sé hreint óráð og mun ekki taka þátt í því að löggjafarvaldið sniðgangi niðurstöðu Hæstaréttar og grafi þannig undan þrískiptingu ríkisvaldsins. Hæstiréttur, æðsta stig dómsvaldsins, hefur kveðið upp sinn dóm og okkur ber að hlíta þeirri niðurstöðu sama hversu sammála eða ósammála við erum þeim forsendum sem dómurinn byggir niðurstöðu sína á.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það sé bara ein leið fær í þessu máli, að horfast í augu við þá annmarka sem voru á kosningunni og framkvæmd hennar, lagfæra þá með nýjum lögum og tryggja að framkvæmdin verði í samræmi við ákvæði almennra kosningalaga og halda síðan nýja kosningu til stjórnlagaþings því að hugmyndin um stjórnlagaþing er mikilvægasta framlag síðustu áratuga til eflingar lýðræði í landinu.