139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[14:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég vil fyrst greina frá grundvallarafstöðu minni til málsins. Hún er óbreytt frá því að við kusum um það hvort við ættum að halda stjórnlagaþing eftir þessari leið eða ekki. Ég styð það að stjórnlagaþing verði haldið og þá eins og við ákváðum. Mér fannst þetta farsæl niðurstaða hér í þinginu og eins og komið hefur fram, m.a. í ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, er það hluti af stefnu Framsóknarflokksins að halda beri stjórnlagaþing þó að upprunalegar hugmyndir Framsóknarflokksins um stjórnlagaþing hafi verið með aðeins öðrum hætti.

Ég tel áríðandi að við höldum stjórnlagaþing og ég tel þetta mikilvægt mál. Ég vil gera athugasemdir við málflutning margra þingmanna sem gengur út á að halda því fram að eitthvað annað sé mikilvægara að gera. Hér eru þingmenn sem virðast búa yfir þeirri vitneskju, eins og hún sé óumdeild, að alltaf sé eitthvað annað sem sé mikilvægara að gera. Ég held í fyrsta lagi að við getum gert margt í einu. Ég held að við getum endurreist atvinnulífið og endurskoðað stjórnarskrána. Það þarf ekki alltaf að hugsa í forgangsröðun eins og við gerum bara eitt í einu. Kannski er það karllæg hugsun svo að ég noti hér orðalag úr annarri umræðu. Ég held að það sé bara mikilvægt að gera þetta tvennt, ef ekki margt fleira.

Svo er það dómur Hæstaréttar. Hann er á þann veg að við verðum að horfast í augu við að kosningarnar sjálfar til stjórnlagaþings mistókust. Þær eru ógildar, kjörbréfin eru ekki gild. En það er líka áríðandi að spyrja sig: Hvað hefur í raun og veru breyst? Við megum ekki gera of mikið úr því sem hefur breyst. Ég tek undir þau orð margra að við verðum að anda með nefinu. Þetta er ráðgefandi þing, 80 þús. manns hafa kosið 25 einstaklinga til að gera tillögu um nýja stjórnarskrá. Við getum eftir sem áður látið þetta gerast. Við getum eftir sem áður látið þessa 25 einstaklinga koma með tillögu að nýrri stjórnarskrá til Alþingis. Það er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu, og margt sem mælir með því. Ég er frekar svag fyrir þeirri leið, að við hönnum hana. Það hefur heldur ekkert breyst í því að ef þessir 25 einstaklingar kæmu með afleitar hugmyndir að nýrri stjórnarskrá mundum við væntanlega ekki hleypa þeim hugmyndum hér í gegn. Við gætum það væntanlega ekki samvisku okkar vegna, erum ekki kjörin til þess.

Það hefur heldur ekkert breyst þannig að eftir sem áður veltur þetta allt á því hvort við höfum trú á því að þessir 25 einstaklingar, sem 80 þús. Íslendingar kusu til þessara starfa, komi með góða tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland á þeirri ögurstundu sem við lifum. Ég hef trú á því og ég vil leyfa því ferli að gerast (Forseti hringir.) og leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að svo megi verða.