HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu

Fimmtudaginn 27. janúar 2011, kl. 15:38:53 (0)


139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu.

[15:38]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt í þessari umræðu að gæta að pólitísku samhengi hlutanna. Þess vegna ætla ég ekki að fjalla um einstök atriði, tæknileg eða lagaleg, sem vikið var að í framsöguræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Málið er hápólitískt í sögulegu samhengi.

Þannig hefur því háttað til á Íslandi að orkufyrirtækin hafa verið í eigu þjóðarinnar og virkjanirnar líka, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Rafmagnsveitur ríkisins, Orkubú Vestfjarða o.s.frv. Engum datt í hug að selja þessi fyrirtæki. Það var hluti af sterkri sjálfsmynd sjálfstæðrar þjóðar að eiga sín orkufyrirtæki og sínar virkjanir löngu fyrir lýðveldisstofnun. Fyrstu áratugi nýs lýðveldis var það líka öruggt. Þannig var það líka raunar með símann, þannig var það með útvarpið og margt af því sem gerir samfélag að samfélagi, stoðir sem til hafði verið stofnað fyrir almannafé og var ætlað að þjóna hagsmunum almennings og hagsmunum heildarinnar. Engum datt í hug að selja þær stoðir. Kannski örfáum hægri mönnum en þær áherslur fengu ekki raunverulegan byr.

Á síðustu áratugum síðustu aldar óx hægri stefnunni ásmegin og ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins tóku við völdum, völdum sem flokkurinn hafði í hartnær 18 ár. Bylgja hægrisins og nýfrjálshyggjunnar reið yfir víðar og einkavæðingarfárið tók sinn toll í hverju samfélaginu á fætur öðru í nágrannalöndum okkar. Sum þessara samfélaga eru enn að vinna úr áföllum og skaða sem þessi stefna vann og Ísland hefur ekki farið varhluta af þeim áföllum. Síminn var seldur og útvarpið var fært nær markaðstorginu og einkavæðing HS Orku hófst.

Þann 5. mars 2007 sendi framkvæmdanefnd um einkavæðingu minnisblað til ráðherranefndar um einkavæðingu þar sem gerð er tillaga um undirbúning við sölu á eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Þar kemur m.a. fram að talið er að út frá sjónarmiðum um einkavæðingu sé talið rétt að útiloka íslensk orkufyrirtæki í opinberri eigu frá kaupum. Þarna hófst einkavæðing fyrirtækisins og ferill sem er okkar að vinda ofan af. Verkefnið er að færa fyrirtækið aftur í hendur almennings í landinu með þeim leiðum sem færar eru. Markmiðið er skýrt og vilji ríkisstjórnarinnar liggur fyrir.