HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu

Fimmtudaginn 27. janúar 2011, kl. 15:41:06 (0)


139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu.

[15:41]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér Magma, HS Orku og einkavæðingu auðlinda og þá stefnu sem hugsanlega er uppi að það beri að taka þetta eignarnámi aftur. Komið hefur í ljós í útreikningum að beinn kostnaður af eignarnámi er hugsanlega minni en eins árs hagnaður fyrirtækisins sem var 6,8 milljarðar árið 2010. Leigutekjur Reykjanesbæjar fyrir það ár af auðlindinni eru hins vegar 50 millj. kr., þ.e. 0,8% af bókfærðum tekjum fyrirtækisins árið 2010. Þennan samning gerðu sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ undir leiðsögn Árna Sigfússonar. Frú forseti. Þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn kallar nauðsynlega erlenda fjárfestingu og þeir vilja meira af þessu. Þetta heitir að arður af auðlindum fer úr landi, það heitir ekkert annað. Reikningar fyrirtækisins sýna einnig að eigandi þess, Ross Beaty, lánaði eigin félagi 10 milljónir dollara á 8% vöxtum með 2,5% lántökugjaldi þegar vextir á alþjóðamörkuðum eru um eða undir 2%. Hljómar kunnuglega, ekki satt? Þetta heitir að taka arð af auðlindum úr landi.

Það gengur ekki að fara svona með auðlindir Íslendinga og Íslands. Þetta er bara arðrán á auðlindum Íslendinga. Þessu verður að vinda ofan af. Frumnýting náttúruauðlinda eins og jarðvarma, það gengur einfaldlega ekki upp að hafa slíkt undir formerkjum einkarekstrar, finna þarf aðrar leiðir til að nýta þær auðlindir.