HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu

Fimmtudaginn 27. janúar 2011, kl. 15:45:29 (0)


139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu.

[15:45]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Yfirráð og eignarhald á auðlindum lands og sjávar snerta viðkvæman streng í brjóstum flestra og útskýrir að mörgu leyti þær langvinnu deilur sem hafa skapast um einkavæðinguna, HS Orku og kaup Magma Energy á nýtingarréttinum síðar. Grundvallaratriðið er að sjálfsögðu fortakslaust eignarhald opinberra aðila á auðlindum Íslands sem geta eftir atvikum, eins og lögin frá 2008 heimila, leigt nýtingarréttinn gegn gjaldi á tilteknum tíma. Það tryggja lögin frá 2008 nema hvað sá langi tími sem gefinn er í lögunum, eins og hæstv. forsætisráðherra útskýrði hérna áðan hvernig kom til um útleigu á réttinum, veldur því að mörgum finnst sem það jafngildi eignarhaldi á auðlindinni. Á þetta ber að hlusta og ofan af þessu ber að vinda. Þess vegna þótti mér niðurstaða ríkisstjórnar í fyrradag afskaplega heppileg og til þess fallin að ná sátt og friði, bæði um málaflokkinn, eignarhald og nýtingu á auðlindunum og ekki síst það fyrirtæki sem hér á í hlut. Við viljum að sjálfsögðu öll að það geti starfað á eðlilegum forsendum og í eðlilegu umhverfi. Deilunum um handhafa nýtingarréttar HS Orku verður að ljúka. Þær þarf að setja niður.

Ég held að þær viðræður sem nú eru að hefjast milli iðnaðarráðherra og fyrirtækisins um að stytta leigutímann á nýtingarréttinum rími við afskrift virkjana félagsins og geti verið til þess fallnar að ná sátt um málið. Það eyðir út annarri umræðu um það hver raunverulega eigi auðlindina sem er að sjálfsögðu opinber aðili, sveitarfélagið. Um er að ræða nýtingarrétt einkaaðila á auðlindinni. Hann þarf að vera í hóflegan tíma sem sátt ríkir um. Deilurnar torvelda að sjálfsögðu fyrirtækinu að starfa eðlilega og þær verður að setja niður, það er skylda okkar, og umræðan verður að vera á réttu róli.

Opinberir aðilar eiga auðlindina og leigja út nýtingarréttinn en sá tími er óhóflegur og of langur og því þarf (Forseti hringir.) að breyta. Það er grundvöllur sátta en ekki aðrar aðgerðir. [Kliður í þingsal.]