139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[16:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra innilega fyrir þessa yfirferð. Það er ánægjulegt að sjá hvar þetta er statt í ráðuneytinu og þann samhljóm sem ég heyri þaðan við það sem ég hef verið að upplifa mín megin frá.

Varðandi peningalegu þættina í þessu tek ég undir það að ég er náttúrlega bara nýliði hérna og gerði mér ekki grein fyrir að það væri eitthvað sem þyrfti að kalla eftir enda virðist ekki vera nein hefð fyrir því. Það er því kannski kjörið tækifæri þegar við sitjum saman og klárum þessi nýju þingsköp að leggja einhverjar línur varðandi það í því ágæta frumvarpi. Ég mun bera þau skilaboð áfram inn í þá nefnd sem um það sér.

Mig langaði aðeins að tæpa á því af hverju ég fékk svona mikinn áhuga á þessu tiltekna málefni og af hverju ég hef eytt öllum mínum frítíma í meira en ár í þetta mál. Það má kannski segja að það sé ákveðin endurspeglun á því hvað ég upplifi, eins og mjög margir aðrir hérlendis — fyrir og eftir hrun var mjög erfitt að fá upplýsingar um hvað væri í gangi. Maður vissi að eitthvað væri í gangi en mjög lítið var fjallað um það og þeir sem komu fram með einhverjar upplýsingar voru alltaf keyrðir í kaf. En í stóra samhenginu þegar ég fór að hugsa um þetta svona eftir á að hyggja, og eftir að hafa verið svona mikil umræða bæði hérlendis og erlendis um það sem ég kalla afhjúpendur, Whistleblowers — ég held þetta sé dæmi um það í raun og veru. Það vissu mjög margir hvað það væri þegar Daníel Ellsberg lak gögnum sínum sem stöðvuðu Víetnam-stríðið og hafði gríðarleg samfélagsleg áhrif út um allan heim. Síðan er eins og þetta hafi einhvern veginn sem möguleiki eða ábyrgð — ég lít á það sem ákveðna ábyrgð borgara eða almennings að láta vita þegar þeir verða vitni að glæpsamlegri hegðun eða lögbrotum, hvort sem það er í einkageiranum eða stjórnsýslugeiranum. En það er mjög erfitt í jafnlitlu samfélagi og hér ef ekki er bæði hvati og stuðningur við þá aðila sem ákveða að fara þá leið.

Það er sérstaklega tekið á því í Immanum, tillögur að því hvernig mætti bæta úr því. Hugsið ykkur bara ef öll sú umræða sem orðið hefur í tengslum við þá leka sem átt hafa sér stað undanfarið víðs vegar um heim og út af Immanum í alþjóðasamhenginu hefði verið komin fram fyrir bankahrun hefði þetta kannski orðið miklu minna hrun, þ.e. ef einhver hefði þorað að segja frá því sem þar var í gangi.

Það er annað sem mér finnst mjög mikilvægt við Immann og það er mjög sterk löggjöf í kringum heimildarmenn. Í íslensku samhengi, ef við skoðun þetta eingöngu frá Íslandi, er gríðarlega mikilvægt að fólk geti verið öruggt í því hlutverki að vera heimildarmenn. Og síðan þegar maður fer að skoða þetta í enn stærra samhengi, og sérstaklega í kjölfar þeirra atburða sem ég hef verið að upplifa varðandi mínar persónuupplýsingar á netinu, hlýtur maður að spyrja sig hversu öruggur er maður að leka upplýsingum á netinu. Það þarf því að vera mjög sterk og skýr löggjöf um aðkomu yfirvalda að slíkum gögnum. Ég fagna því innilega hvert við erum komin varðandi meðvitund um upplýsingar. Það gleyma því margir að ef við höfum ekki upplýsingafrelsi á netinu þá höfum við það ekki í raunheimum heldur. Það hefur verið að skýrast meira og meira. Eftir því sem ég hef kynnt mér þessi mál betur og rætt við fleira fólk víðs vegar er ljóst að pottur er þar mjög brotinn og sér í lagi í Evrópu og Bandaríkjunum. Maður hefur oft litið til Kína en ástandið er alveg jafnslæmt í Bandaríkjunum því að þar er bara réttlætið út frá því hvað þú ert með djúpa vasa en ekki hverja þú þekkir eins og í Kína eða hvar í flokknum þú stendur.

Það er líka annar mikilvægur þáttur sem mér finnst að við þurfum að huga að og það er tímaramminn. Það er gríðarlegur áhugi á Íslandi núna út af þessu og margir sem vilja koma og hafa nú þegar flutt starfsemi sína til Íslands vegna þess að þeir vilja styðja við þetta verkefni. Því verða kannski ákveðnir þættir Immans að vera í forgangi þannig að fólk geti byrjað að koma með starfsemi sína og þá er þetta mjög mikið eitthvað sem tengist félögum, alls konar félögum — það getur þess vegna verið húseigendafélag í Bandaríkjunum eða húseigendafélagasamtök í Bandaríkjunum eða blaðamenn í Mexíkó sem hafa áhuga á að flytja gögnin sín hingað. Í enn ríkara mæli mun það verða þannig að þeir sem hýsa persónuupplýsingar munu vilja koma með gögnin sín hingað eins og sést kannski endurspeglast að einhverju leyti í áhuga Brewsters Kahles sem kom til Íslands á mánudaginn og hefur mikinn áhuga á að aðstoða við að Íslendingar verði allra þjóða fyrstir til að rafvæða bókmenntahefðina frá upphafi til dagsins í dag og gera hana aðgengilega fyrir þá sem eru blindir eða eiga t.d. við lesblindu að stríða. Ef við mundum hýsa það hérlendis mundi það líka greiða leiðina fyrir aðra sem vilja hýsa efni sitt út af því að okkur vantar einhvern stóran aðila sem er tilbúinn til að koma hingað og byrja til að sýna að við séum með tæknina, lögin og umhverfið til að fólk þori að koma með stóru hlutina hingað, sumir hafa látið sig dreyma um Yahoo, Google eða Facebook eða eitthvað slíkt. En til þess þarf maður fyrst (Utanrrh.: Eða Twitter.) — eða Twitter, þeir hefðu örugglega áhuga á að koma hingað.

Mig langar líka að nefna að við stofnuðum formlega í gær stofnun sem hefur fengið heitið The Icelandic Modern Media Initiative, IMMI-stofnunin, sem hefur það hlutverk að vera upplýsinga- og málfrelsismiðstöð. Við höfum fengið stuðning til að gera það og erum reiðubúin til aðstoðar ef einhver þarf einhverja aðstoð við að fá einhverjar upplýsingar sem geta greitt leiðina að því að flýta fyrir þessu máli. Mig langar líka að nefna að Ísland hefur ákveðna sérstöðu þegar kemur að gagnavershugmyndinni sem er mjög jákvætt, alla vega í mínum bókum, sem hef mikinn áhuga á að við notum orkuna okkar í eitthvað sem tryggir störf fyrir það fólk sem hefur menntað sig hérlendis, þannig að það fari ekki frá okkur, að við notum hana í eitthvað annað en einn iðnað. Það er nefnilega svo áhugavert að fólk er tilbúið til að borga vel fyrir orkuna okkar, ekki er óskað eftir afslætti á endurvinnanlegri orku. Fólk lítur til Íslands út af því að við erum staðsett mitt á milli tveggja stærstu neytenda upplýsinga, Bandaríkjanna og Evrópu. Það lítur hingað út vegna þess að við erum með stuttan skala á hitastigi og það lítur hingað út af Immanum. Ég sé ákveðin tækifæri núna og mér finnst mjög mikilvægt að við drögum ekki lappirnar og er tilbúin til að leggja mikið á mig til að þetta geti haldið áfram og heiti öllum þeim stuðningi sem ég get boðið upp á. Ég skora á aðra þingmenn að kynna sér þetta mál frekar og er tilbúin til að vera með kynningu fyrir þingmenn eins og við gerðum þegar við vorum að semja þetta og fá stuðning fyrir því í þinginu, en það er ekki síður mikilvægt að þingmenn styðji þetta alla leið.

Mig langar jafnframt til að hrósa ríkisstjórninni, og þá sérstaklega hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, fyrir þolinmæðina gagnvart öllum þeim fundum sem ég hef fengið hjá henni og þegar ég hef ruðst inn með fullt af fólki. Mig langar til að hrósa þinginu fyrir að hafa tekið þátt í þessu verkefni með okkur og kallað eftir því enn og aftur að við höldum áfram að vinna þetta mál saman. Hér erum við alla vega með eitthvað sem hangir í samhengi við hvert við viljum stefna sem þjóð og getum þá með sanni gert Ísland að sögueyjunni Íslandi í framtíðinni.