Bann við búrkum

Mánudaginn 31. janúar 2011, kl. 16:48:12 (0)


139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

bann við búrkum.

252. mál
[16:48]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að hafa í huga að hér er verið að spyrja hvort banna eigi búrkur á Íslandi en ekki einhvers staðar annars staðar. Að því leyti snýst umræðan um það hvort konur eigi að vera persónugreinanlegar í hinu opinbera rými, svo að gripið sé til orðræðu femínismans.

Á Íslandi eru konur persónugreinanlegar í hinu opinbera rými, hvað fólk gerir heima hjá sér er undir því sjálfu komið. Það hlýtur því að liggja í hlutarins eðli að við íhugum það af fullri alvöru að konum á Íslandi sé ekki liðið að vera ópersónugreinanlegar í opinberu rými. Hverjum skyldi það nú gagnast að vera ópersónugreinanlegur á almannafæri? Það er gott að spyrja sig að því og það er líka gott að muna í þessari umræðu að grundvallarmunur er á því að bera höfuðslæðu eða hylja andlit sitt og líkama frá toppi til táar, það er grundvallarmunur á því. Hvorugt hefur nokkuð með trúarbrögð að gera.