Tollalög o.fl.

Mánudaginn 14. mars 2011, kl. 17:20:26 (0)

139. löggjafarþing — 90. fundur,  14. mars 2011.

tollalög o.fl.

584. mál
[17:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka efnahags- og skattanefnd fyrir snöfurmannleg vinnubrögð í málinu. Rétt er að gefa þá skýringu að ekki var ráðgert að framlengja ívilnanir af þessu tagi sem dóu út á síðasta ári. Síðan komu fram óskir um að gera það á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs vegna þess að nóvember- og desembermánuðir eru þungir í þessum útgjöldum hjá fyrirtækjum vegna jólaverslunar og af fleiri ástæðum. Þar með var talið að látið yrði staðar numið en síðan komu undir lokin fram eindregnar óskir um að dreifa gjalddögunum áfram, a.m.k. á þessu tímabili. Var vænlegastur sá kostur sem hér hefur orðið að ráði, að efnahags- og skattanefnd flytti sjálf frumvarp. Hún hefur klárað það fljótt og vel og þingheimur tekið því mjög vel enda hef ég tekið eftir því að stuðningur við málið hefur farið vaxandi í hverri atkvæðagreiðslu.