Húsnæðismál

Þriðjudaginn 15. mars 2011, kl. 21:41:34 (0)


139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[21:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð yfir málið og nefndarálit meiri hlutans. Það er eitt sem ég vildi gera athugasemd við strax, herra forseti. Í nefndaráliti frá nefndum með einu meirihlutaáliti er getið um þingmenn sem eru fjarverandi og þingmenn sem eru á nefndarálitinu en ekki er getið um þá þingmenn sem voru viðstaddir en vildu ekki vera á nefndarálitinu. Ég held að þingið ætti að breyta þessu vinnulagi. Ég bið hv. forseta að koma því á framfæri við forsætisnefnd að þarna hefði gjarnan mátt standa „hv. þingmaður Pétur H. Blöndal var viðstaddur fundinn en skrifaði ekki undir nefndarálitið“. Í því felst ákveðin afstaða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í afskriftaþörfina. Við erum nýbúin að setja 33 milljarða með miklu hraði og lítilli yfirlegu og lítilli hugsun til Íbúðalánasjóðs til að dekka afskriftir næstu þriggja ára. Nú kemur allt í einu í ljós að gífurlega peninga vantar inn í þetta, ég held um 15 milljarða í viðbót. Ég ætla að fá að vita: Er ekki alveg á tæru að 15 milljarða vantar til viðbótar til að halda stöðu sjóðsins óbreyttri miðað við það sem hún átti að vera eftir að við vorum búin að setja 33 milljarða inn? Þetta er hið fyrsta.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann: Margir af hans hv. samflokksmönnum hafa gagnrýnt einkavæðingu bankanna og sagt að hún hafi verið af hinu illa og búið til ógurleg vandræði, kreppu og hrun. Nú ræðum við um ríkisbanka sem starfar samkvæmt mjög stífum og skörpum reglum um útlán, samt er hann líka með mikið tap. Ég minni á Byggðastofnun (Forseti hringir.) í þessu sambandi sem er líka ríkisbanki. Er þá rétt að þetta sé einkavæðingu bankanna að kenna?