Húsnæðismál

Þriðjudaginn 15. mars 2011, kl. 21:43:50 (0)


139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[21:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið. Ég tek undir með hv. þingmanni að vissulega færi vel á því að geta þess í lokaafgreiðslu út úr nefndum eða við afgreiðslu nefndarálita hverjir voru viðstaddir, hvort sem þeir ætluðu að vera með á álitinu eða ekki. Það er ágætis ábending.

Varðandi afskriftaþörfina verð ég að segja, eins og kom fram í máli mínu áðan og kemur fram í nefndarálitinu, að hvort fjárþörfin er 15 milljarðar umfram það sem við höfum þegar ákvarðað, vitum við það í rauninni ekki almennilega fyrr en líður á árið, þ.e. þegar við sjáum hversu mikið af lánum Íbúðalánasjóðs fara að standa sig betur en þau gera í dag og hvort greiðendur verði í betri færum til að standa í skilum af lánum sínum þegar afskriftir annarra fjármálafyrirtækja m.a. á lánum á fasteignum þeirra gera tekjustreymi til Íbúðalánasjóðs eitthvað betra. Það hefur verið rætt aðeins í hversu miklum mæli þetta yrði en í rauninni er ómögulegt að segja það á þessari stundu en það gæti skipt verulegu máli.

Ég skildi ekki alveg seinni spurningu hv. þingmanns um einkavæðingu bankanna, hvort hún væri orsökin fyrir afskriftaþörfinni. Ég þori ekki að segja til um það að óathuguðu máli og legg til að ég og hv. þingmaður ræðum það frekar í góðu tómi þegar ég hef haft tækifæri til að fara yfir gögn sem snúa að því máli sérstaklega.