Beiðni um kosningu í nefndir

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 14:02:50 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

lengd þingfundar.

[14:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil minna á að við þingmenn vorum til miðnættis í gær að ræða málin. Samkvæmt starfsáætlun þingsins er ekki gert ráð fyrir kvöldfundi á öðrum dögum en þriðjudögum þegar ekki þarf að leita sérstakrar heimildar til þess. En við höfum oft verið ansi liðleg við að greiða fyrir þingstörfunum með því að heimila lengri fundi þegar sérstök tilefni hafa þótt til. Í dag er miðvikudagurinn 23. mars og því er tilefnið ekki það að klára þurfi einhver ákveðin mál áður en þinginu lýkur.

Það er hins vegar líka rétt að vekja athygli á dagsetningunni, 23. mars, vegna þess að einungis er vika þar til seinasti dagur verður til að leggja fram ný þingmál. Nú er forseti að óska eftir því að það verði lengri fundartími í kvöld til að klára dagskrá þar sem við eigum meðal annars að ræða almenningsbókasöfn og hvort banna eigi skrotóbak. Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst ekki liggja það mikið á þessu og mér finnst skipulag þingsins vera komið í mikið óefni þegar við getum ekki treyst starfsáætlun þingsins einn einasta dag og gert okkar áætlanir, að ég minnist nú ekki á markmið frú forseta um fjölskylduvænan vinnustað sem haldið er á lofti á tyllidögum. Ég verð að segja að mér finnst þetta ástæðulaust og ætla því að greiða atkvæði gegn þessari tillögu forseta.