Jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 14:13:17 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið liggur fyrir að hæstv. forsætisráðherra, og ráðuneyti hennar, hefur gerst sek um að brjóta jafnréttislög. Úrskurður kærunefndar jafnréttismála er skýr og niðurstaðan grafalvarlegur áfellisdómur fyrir hæstv. forsætisráðherra persónulega.

Það yfirklór sem kemur fram í yfirlýsingu forsætisráðuneytisins í dag þar sem reynt er að hvítþvo hæstv. forsætisráðherra af lögbrotinu breytir engu þar um. Úrskurður kærunefndarinnar er skýr og talar sínu máli og þar má sjá að forsætisráðuneytið braut með grófum hætti gegn jafnréttislögum og á því lögbroti ber hæstv. forsætisráðherra ábyrgð og enginn annar.

Niðurstaða kærunefndarinnar er alveg sérstaklega ámælisverð í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra er ráðherra jafnréttismála og það eitt og sér gerir málið sérstaklega alvarlegt. Ég fullyrði að enginn hv. þingmaður hefur gengið jafnlangt í því að krefjast þess að ráðherrar axli ábyrgð gerist þeir sekir um lögbrot og hæstv. forsætisráðherra og ekki síst þegar um brot á jafnréttislögunum er að ræða.

Þann 16. apríl 2004 sagði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta: „Hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra sem brýtur svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka.“ Nú liggur fyrir úrskurður kærunefndar jafnréttismála þar sem brot hæstv. forsætisráðherra á jafnréttislögunum hefur verið staðfest.

Ég trúi því ekki að formaður þingflokks Samfylkingarinnar, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrum þingmaður Kvennalistans og ein helsta baráttukona Samfylkingarinnar í jafnréttis- og kvenfrelsismálum, ætli að réttlæta brot hæstv. forsætisráðherra á jafnréttislögum þó að ég hafi skilning á því að hún vilji verja sinn formann. En ég vil engu að síður spyrja hv. þingmann að því (Forseti hringir.) hvernig hún telur að hæstv. forsætisráðherra eigi að bregðast við niðurstöðum kærunefndar jafnréttismála og axla sína ábyrgð og hvort hún telur yfir höfuð (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherra jafnréttismála sé sætt í embætti sínu.