Jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 14:19:05 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

[14:19]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp. Eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson væntanlega veit er ég stuðningsmaður þess að auka aflaheimildir, hef marglýst því yfir, tekið það mál upp innan þingflokks Samfylkingarinnar og deili þar af leiðandi þeirri skoðun með þingmanninum.

Þorskstofninn er með stærsta móti núna, viðmiðunarstofninn, hefur ekki verið stærri í áratugi, og ekki hrygningarstofninn heldur. Sjómenn segja að varla sé hægt að komast um á miðunum fyrir fiski, makríllinn fullur af þorskseiðum o.s.frv. Ég hef verið talsmaður þess ásamt fleiri þingmönnum hér inni, bæði opinberlega og óopinberlega, að við ættum núna að skoða það í fullri alvöru að auka aflaheimildirnar, (SER: Hver er á móti?) byggja á rannsóknum og skýrslum Hafrannsóknastofnunar þar sem sjá má að þorskstofninn er ekki í nokkurri hættu þó að aukið sé við aflaheimildir. Hann mun halda áfram að vaxa þó að við aukum aflaheimildirnar allt upp í, sumir segja 30–40 þús. tonn. Ég mundi vilja beita varúðarnálgun þar á og miða við kannski 20 þús. tonn. Áður var til siðs að miða við 25% af hrygningarstofninum og nú er miðað við 22%. Þótt við færðum okkur aftur upp í þessi 25% væri stofninn ekki í nokkurri hættu. Ég tel að það væri skynsamleg varúðarnálgun og tel fullt tilefni til.

Varðandi löndunarskylduna hefur það mál verið rætt af fullri alvöru í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd, síðast nú í morgun. Menn eru mjög hugsi yfir þeim upplýsingum sem fram hafa komið um möguleika á atvinnusköpun (Forseti hringir.) ef sú tilhögun yrði tekin upp. Mér finnst full ástæða til að skoða það.