Jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 14:21:24 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

[14:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn til hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar. Sumarið 2009 voru nokkrir hv. þingmenn Vinstri grænna, hugrakkir þingmenn, sem brutust undan viðjum flokksagans, fundu nýjar lausnir í Icesave og björguðu þjóðinni frá gífurlegum skaða. Þetta voru m.a. hv. þm. Lilja Mósesdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ögmundur Jónasson og Atli Gíslason. Nú hafa tveir þessara félaga yfirgefið Vinstri græna. Þau kvarta undan foringjaræði og kattasmölun, sem eru nýyrði í íslensku, og segja Vinstri græna hafa svikið flestöll kosningaloforð sín varðandi samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Icesave og sérstaklega ESB. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sáttur við ummæli hæstv. utanríkisráðherra um aðild að Evrópusambandinu, hvort við séum að semja við Evrópusambandið eða aðlagast Evrópusambandinu, hvort þetta sé aðlögun eða viðræður. (Gripið fram í: Ganga inn í það.)

Í gær grét hæstv. fjármálaráðherra í ræðustól yfir erfiðri vinnu og flórmokstri. Ég spyr hv. þingmann: Getur verið að hæstv. ráðherra hafi tapað hugsjónum Vinstri grænna í flórnum? [Hlátur í þingsal.]