Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 14:38:56 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

fundarstjórn.

[14:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að koma hingað upp í ljósi þeirrar umræðu sem við áttum áðan um úrskurð kærunefndar jafnréttismála. Ég vil ekki grípa fram fyrir hendurnar á mínum ágæta félaga og þingflokksformannakollega, hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, sem hefur óskað eftir utandagskrárumræðu um þetta mál og ég styð þá beiðni. En ég vil varpa því fram við hæstv. forseta, sérstaklega í ljósi ummæla hv. stjórnarþingmanna sem sögðu að þetta mál væri grafalvarlegt, að til að sinna eftirlitsskyldu okkar þyrftum við, löggjafinn, að fá skýringar frá framkvæmdarvaldinu. Það væri tilhlýðilegt að hæstv. forsætisráðherra gæfi okkur skýrslu um þetta mál, útskýrði sjónarmið sitt, helst í dag. Mér finnst málið ekki þola neina bið, sérstaklega í ljósi ummæla hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) í fortíðinni. Og vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið í dag þá óska ég eftir, frú forseti, að forseti hlutist til um hvort hægt sé að koma á slíkri umræðu í dag, og ef ekki, þá strax á morgun.