Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 14:43:19 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

fundarstjórn.

[14:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir hluta þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram.

Við höfum margoft talað um að nauðsynlegt sé í kjölfar rannsóknarskýrslu Alþingis að taka mál fastari tökum. Það kom fram í máli þeirra þingmanna sem sögðu sig úr þingflokki Vinstri grænna í gær, sérstaklega hv. þm. Atla Gíslasonar, að hér hefði lítið breyst og menn hefðu lítið lært. Í ljósi þess langar mig að beina því til forseta að það sé fullkomlega óeðlilegt að hafa umræðu um þingsköp Alþingis síðasta lið á dagskránni, þ.e. að breyta háttum þingsins, hvernig það tekur á málum. Ég held að sú umfjöllun ætti að hafa miklu meiri forgang í störfum þingsins og kannski ekki síst í ljósi þess að við höfum horft upp á ráðherra koma trekk í trekk og segja að þeir séu bara í pólitík þegar þeir brjóta lög, eins og hæstv. umhverfisráðherra gerði. Kannski hæstv. forsætisráðherra geti líka sagt, þegar hún flytur skýrslu sína, að hún sé bara í pólitík. Svo er það annað mál umfjöllunin um það að við sniðgöngum Hæstarétt. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum umræðu um þingmannaskýrsluna og förum að framfylgja einhverju af því sem við samþykktum þar.