Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 14:45:02 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

fundarstjórn.

[14:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka virðulegum forseta fyrir að ætla að setjast niður með þingflokksformönnum. Ég held að það sé afskaplega skynsamlegt og ég tel að hér hafi menn mælt mjög skynsamlega. Það er ljóst að við þurftum að breyta dagskrá þingsins vegna þeirra mála sem komið hafa upp. Ég held að það sé enginn bragur á því, með fullri virðingu fyrir þeirri dagskrá sem liggur fyrir þinginu í dag, að við ræðum mál eftir dagskránni sem augljóslega var samin þegar menn voru ekki búnir að átta sig á alvöru þeirra mála sem hér eru uppi.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem komið hefur fram en vil þó segja að mér fyndist eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra svaraði fyrir fleira en einungis þau brot sem urðu á jafnréttislögunum á hennar ábyrgð því að það er augljóslega af (Forseti hringir.) nógu að taka. Ég er afskaplega ánægður með að virðulegur forseti ætli að setjast niður með þingflokksformönnum og vonast til þess að við sjáum hér aðra dagskrá.