Staða Íbúðalánasjóðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 15:07:08 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:07]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Á fundi sem ég og fleiri áttum með fulltrúum frá Íbúðalánasjóði ræddum við m.a. um 110%-leiðina. Þar kom fram að að mati þeirra starfsmanna sem sátu þann fund væri 110%-leiðin í raun og veru leiðrétting á því verðbólguskoti sem hefði orðið í framhaldi af hruninu. Mér fannst þetta einkar athyglisvert. Þetta voru nákvæmlega sömu niðurstöður og við fengum varðandi almenna leiðréttingu, eða 20%-leiðin sem við lögðum til um að leiðrétta þann forsendubrest og það verðbólguskot sem varð í framhaldi af bankahruninu.

Þegar við komum fram með þá hugmynd að fara í almenna leiðréttingu á skuldum bæði heimila og fyrirtækja til að reyna að sparka atvinnulífinu aftur af stað, þegar leið á kvöldið daginn sem þessi hugmynd kom fram hreinlega loguðu bloggvefir um þessa hugmynd. Tilfinningin var eiginlega sú að þarna væru menn að draga fram stórskotabyssurnar, fallbyssurnar, og það ætti að gera allt til að skjóta þessa hugmynd niður. Þegar ég horfi til baka er nánast mjög sárt að hugsa til þess að hugsanlega geti verið, og ég hef heyrt þetta frá fleiri en einum, að helsti gallinn við hugmyndina hafi verið frá hverjum hún kom, að hún kom frá framsóknarmönnum. (Gripið fram í.) Það sem ég upplifði þarna var hraðnámskeið í því hvernig íslensk stjórnmál virka.

Það sem við horfum upp á núna er að nauðsyn þess að fara í þessa leiðréttingu hefur verið staðfest með 110%-leið ríkisstjórnarinnar og að líka hefur verið sýnt fram á, í nýjustu reikningum bankanna, að það var svigrúm til að láta kröfuhafana (Forseti hringir.) borga þetta í staðinn (Forseti hringir.) fyrir það sem verið er að gera núna, að láta íslenska skattgreiðendur borga þetta.