Staða Íbúðalánasjóðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 15:09:35 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að við ræðum hér stöðu Íbúðalánasjóðs, enda hefur Alþingi samþykkt þingsályktun mína um rannsókn á stöðu sjóðsins. Hér hefur verið rætt í dag um áhrif 110%-leiðarinnar á stöðu sjóðsins og það er ljóst að hún kostar um 22 milljarða kr. Ákvörðun um hana var tekin eftir umfangsmikið samráð við hagsmunaaðila og sameiginlega greiningu þeirra á umfangi vandans og mögulegum úrræðum til lausnar. Þessi aðgerð kostar eins og ég sagði ríkissjóð um 22 milljarða kr. og landsmenn alla þar með.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir fór hér yfir tillögu framsóknarmanna um 20% niðurfellingu skulda og sagði að gallinn við hana hefði verið sá að framsóknarmenn hefðu lagt hana til. Gallinn við þá leið var sá að eingöngu hvað varðaði kostnaðinn fyrir Íbúðalánasjóð voru þetta 112 milljarðar kr., 90 milljörðum hærri kostnaður en 110%-leiðin sem við erum að samþykkja hér. Og að halda því svo fram að við hefðum getað látið erlenda kröfuhafa bera þann kostnað eru „trolleríkúnstir“ af mjög grófu tagi. Ég skal lofa hv. þingmanni því að ef í ljós er að koma að erlendir kröfuhafar séu með óeðlilegum hætti að fá fjármuni sem nýta ætti í að afskrifa hjá heimilum og fyrirtækjum mun ekki standa á Samfylkingunni að tryggja það.