Staða Íbúðalánasjóðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 15:14:03 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Íbúðalánasjóður er sú lánastofnun sem hefur verið hvað virkasti lánveitandinn á innlendum fasteignamarkaði og hefur skyldum að gegna gagnvart öllum landsmönnum burt séð frá búsetu þeirra. Sem betur fer tókst misvitrum stjórnmálamönnum ekki það ætlunarverk sitt að einkavæða hann á sínum tíma eins og bankana með gífurlegu fjárhagstjóni fyrir þjóðina sem fylgdi í kjölfarið með bankahruninu.

Þegar einkabankarnir hófu innreið sína á lánamarkaðinn með nánast óheftu fjármagni og fasteignabólan varð til á höfuðborgarsvæðinu með víxlverkun ódýrs lánsfjármagns og hækkandi fasteignaverðs í kjölfarið var Íbúðalánasjóður í annarri stöðu með þak á lánveitingum til einstaklinga og mætti áfram þörfum lántakenda á landsbyggðinni sem aðrar lánastofnanir sinntu lítið vegna minni veðhæfni húsnæðis þar að þeirra mati. Útlán Íbúðalánajóðs til lögaðila eru einkum komin til vegna leiguíbúða. Þar er um að ræða lán sem veitt hafa verið vegna átaks sem miðaði að því að fjölga leiguíbúðum á markaði, svo sem leiguíbúðir fyrir námsmenn og tekjulága hópa en einnig fyrir almennan markað. Afskriftaþörf í Íbúðalánasjóði er mikil vegna greiðsluerfiðleika lögaðila með hálfbyggðar íbúðir og mikils samdráttar á fasteignamarkaði. Einnig vegna þess samkomulags sem gert hefur verið milli stjórnvalda og fjármálafyrirtækja um aðgerðir í þágu yfirveðsettra heimila, þ.e. 110%-leiðina.

Ríkissjóði var veitt heimild til að efla eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs um allt að 33 milljarða í fjáraukalögum í lok síðasta árs og gera honum þar með kleift að mæta aukinni afskriftaþörf vegna útistandandi lánveitinga og aðgerða í þágu skuldavanda heimilanna. Hefur ESA lagt blessun sína yfir þessa ráðstöfun. Hvort þetta framlag úr ríkissjóði dugir til er enn ekki séð fyrir endann á og ræðst á næstu mánuðum, en það réttlætismál að allir landsmenn eigi kost á 110% niðurfærslu og að Íbúðalánasjóður (Forseti hringir.) muni mæta þeirri sanngirniskröfu skiptir miklu máli.

Rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs fyrir hrun á fullan rétt á sér og er mjög mikilvæg.