Skipun stjórnlagaráðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 15:22:14 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Við tökum hér að nýju til við að ræða þingsályktunartillögu þriggja hv. alþingismanna um skipun svokallaðs stjórnlagaráðs. Þessi síðari umræða um tillöguna hófst á þriðjudagskvöldið í síðustu viku og var fram haldið í gær þannig að umræðan hefur verið nokkuð í bútum sem hefur auðvitað slitið hana svolítið í sundur og hugsanlega gert hana ómarkvissari. Málið var reyndar á dagskrá fleiri daga í síðustu viku en ekki kom til þess að það yrði tekið til umræðu þá heldur var umræðu frestað. Veit ég ekki hver skýringin er á því. Um það hlýtur forusta þingsins að vita, en ég get ekki skýrt fyrir hv. þingmönnum hvernig á því stendur.

Þessi málsmeðferð í þinginu og sá dráttur sem hefur verið á málsmeðferðinni í þingsal er svolítið sérkennilegur í ljósi þess að það lá afskaplega mikið á að afgreiða málið út úr allsherjarnefnd eins og kemur fram í nefndaráliti sem ég undirritaði út úr allsherjarnefnd ásamt hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni. Það lá mjög mikið á að afgreiða málið út úr allsherjarnefnd. Þar mátti ekki víkja nokkru til, jafnvel ekki þótt fram kæmu málefnalegar óskir um frekari gestakomur, það varð að ljúka málinu þar þannig að unnt yrði að taka það til meðferðar í þinginu. Svo þegar það kemur í þingið er asinn ekki mjög mikill. Nóg um það. Fyrir því kunna að vera einhverjar ástæður sem ég þekki ekki.

Staða málsins er farin að skýrast að því leyti að rök með og á móti því hafa verið reifuð. Enn er samt nokkur óvissa um stuðning við málið í þinginu. Fram hefur komið að ýmsir úr þingflokkum stjórnarflokkanna hyggjast ekki styðja tillöguna sem kom út af fyrir sig nokkuð á óvart þegar horft er til þess að þó að ríkisstjórnin stæði ekki ein að þeim aðdraganda sem var að tillögugerðinni lá ljóst fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir höfðu forgöngu í því, fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna.

Það sem hefur komið í ljós við þessa umræðu er að málið er að því er virðist umdeildara innan beggja flokka en sýndist í fyrstu. Hér hafa komið ágætir hv. alþingismenn eins og Helgi Hjörvar og Skúli Helgason úr Samfylkingu og lýst miklum efasemdum um tillöguna, í grundvallaratriðum á sömu forsendum og við sjálfstæðismenn höfum t.d. gert. Afstaða hæstv. innanríkisráðherra hefur raunar verið kunn lengur, en hann tók þegar í stað þá prinsippafstöðu að styðja ekki tillögu í þessa veru af því að hann taldi að hún færi á svig við niðurstöðu Hæstaréttar, væri einhvers konar fjallabaksleið til að komast fram hjá niðurstöðu Hæstaréttar eins og mig minnir að hann hafi orðað það. Hv. þm. Skúli Helgason og Helgi Hjörvar hafa tekið í sama streng.

Ljóst er að þrátt fyrir að fulltrúi Framsóknarflokksins í samráðshópnum sem lagði drögin að tillögunni styddi málið, og styðji málið miðað við ræðu hans hér í gær, hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson, virðist meiri hluti þingflokks framsóknarmanna vera andvígur tillögunni. Um afstöðu okkar, þingmanna Sjálfstæðisflokksins, er ekki þörf að fjölyrða; við höfum verið andvígir málinu frá upphafi.

Nú á auðvitað eftir að koma í ljós hvort andstæðingar tillögunnar kunni að reynast fleiri innan þingflokka Samfylkingar og Vinstri grænna en fram hefur komið. Afar margir þingmenn úr þessum tveimur stjórnmálaflokkum hafa ekki tekið til máls við þessa umræðu þannig að við þekkjum ekki afstöðu þeirra. Það kann að vera að þeir muni fleiri en þegar hefur komið fram annaðhvort ekki greiða tillögunni atkvæði eða einfaldlega greiða atkvæði á móti henni sem væri, mér liggur við að segja heiðarlegri afstaða. Það er heiðarlegra að greiða einfaldlega atkvæði gegn tillögu sem menn hafa lýst sig algjörlega andvíga og fundið allt til foráttu en að sitja hjá. Auðvitað velur hver þingmaður hvernig hann nálgast málið eftir því sem honum finnst best. Hins vegar er ljóst að ef stuðningur við málið er eins og virðist miklu minni en var í upphafi getur hjáseta þeirra sem í hjarta sínu eru andvígir málinu einfaldlega þýtt það að málið komist í gegn og þannig muni hv. þingmenn sem hafa lýst sig efnislega andvíga tillögunni hugsanlega tryggja framgang hennar engu að síður með því að sitja hjá. Það er umhugsunarefni. Þótt það sé ekki einsdæmi hér í þinginu er það umhugsunarefni.

Óvissan er enn þá nokkur í þessu og verður auðvitað forvitnilegt að sjá hvort fleiri hv. þingmenn eiga eftir að gefa sig upp í þessu máli eða láta í ljósi afstöðu sem hugsanlega kemur á óvart. Ég verð að játa að sumar yfirlýsingar við þessa umræðu hafa komið mér nokkuð á óvart, einkum vegna þess að þegar málið var lagt fram hugði ég að stuðningur við það væri meiri hér í þinginu en síðar hefur komið í ljós.

Ég ætla að víkja í ræðu minni örfáum orðum að rökstuðningi gegn þessari tillögu. Ég vísa kannski aftur í framsöguræðuna sem ég flutti hér við upphaf umræðunnar fyrir rúmri viku þar sem ég byggði mjög á því nefndaráliti sem við undirrituðum, við hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson.

Til að gera langa sögu stutta er það mat okkar að tillagan feli það einfaldlega í sér að verið sé að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar. Alþingi hafði falið Hæstarétti að skera úr um gildi tiltekinnar kosningar. Hæstarétti bárust kærur. Hæstiréttur taldi kosninguna ógilda en þá ætlar Alþingi eftir á að taka ákvörðun sem felur í sér að kosningin verði tekin gild engu að síður í raun. Ég segi „í raun“ vegna þess að tillagan gengur út á að sama fólkið verði valið til að sinna sama verkefni á sömu forsendum og sömu kjörum og áður var gert ráð fyrir og að við val á þeim einstaklingum sé byggt á sömu kosningu og metin var ógild. Þessi málsmeðferð er að mínu mati algjörlega fráleit og ótæk og felur það í sér að gengið er gegn niðurstöðu æðsta dómstóls landsins. Um það verður ekki villst að mínu mati og ég og fleiri í þessari umræðu höfum bent á að það er sameiginlegt mat þeirra fræðimanna á sviði lögfræði og stjórnskipunarréttar sem um þetta mál hafa fjallað. Hver og einn hefur valið því sín orð en þeir prófessorar og aðrir fræðimenn á sviði lögfræði og stjórnskipunarréttar sem um þetta hafa fjallað hafa verið efnislega sammála um að verið væri að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar.

Nú kann að vera að sumum þingmönnum þyki það bara allt í lagi en ég er ekki í þeim hópi og ég hygg að þeim þingmönnum fari fjölgandi sem ekki geta tekið þátt í slíkum gjörningi. Sú afstaða er eins og hefur komið fram alls ekki bundin við flokka. Við sjálfstæðismenn höfum lýst þessu yfir frá upphafi, en auðvitað hafa aðrir þingmenn séð þetta með sömu augum og má vísa aftur til þeirra hv. þm. Skúla Helgasonar og Helga Hjörvars í því sambandi auk hæstv. innanríkisráðherra, ráðherra dómsmála í landinu, sem raunar er líka sá ráðherra í landinu sem fer með málefni kosninga svo því sé haldið til haga.

Stuðningsmenn tillögunnar hafa reynt að þræta fyrir að verið sé að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar og farið að mínu mati, hæstv. forseti, í afskaplega mikla loftfimleika til að reyna að rökstyðja þá afstöðu. Mér finnst sá málflutningur dæma sig sjálfur vegna þess að það er augljóst, eins og við gerum í nefndarálitinu sem ég vísa til hér, að þegar borin eru saman ákvæðin um annars vegar stjórnlagaþingið samkvæmt lögunum um stjórnlagaþing og hins vegar stjórnlagaráðið samkvæmt þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er öllum ljóst að um sama fyrirbæri er að ræða. Það á að fá sama fólkið til að setjast í sams konar nefnd, ráð eða samkomu, hvað sem við köllum það. Það á með öðrum orðum að láta eins og niðurstaða Hæstaréttar hefði aldrei verið á þá leið sem raunin varð, það á að láta eins og Hæstiréttur hafi aldrei komist að þeirri niðurstöðu sem hér um ræðir. Út á það gengur tillagan. Geta menn farið með skýrari hætti á svig við niðurstöðu Hæstaréttar? Nei, ég fæ ekki séð hvernig menn geta farið á svig við niðurstöðu Hæstaréttar með skýrari og afdráttarlausari hætti. Það er ekki hægt að mínu mati.

Í raun er málið þannig vaxið að þeir hv. þingmenn sem ætla að segja já við þessari tillögu gætu alveg eins samþykkt tillögu sem væri orðuð einhvern veginn á þessa leið: Alþingi ályktar að hafa niðurstöðu Hæstaréttar að engu.

Ég held að það lýsi innihaldi málsins best að orða það þannig.

Hæstv. forseti. Í þessari ræðu ætla ég ekki að koma inn á fleiri þætti. Ég ætla þó að nefna eitt atriði hér undir lokin sem er á mörkum þess að tengjast efni þeirrar þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar. Ég ætlaði að vekja athygli á því að þrátt fyrir að málið hafi nú verið í umræðu í þinginu í átta daga, það kom fyrst til umræðu í síðustu viku og hefur verið á dagskrá þingsins dag eftir dag síðan þrátt fyrir að það hafi yfirleitt ekki komið til umræðu heldur umræðu frestað, er ekki enn þá búið að leggja fram löngu boðað frumvarp um breytingar á lögum um stjórnlagaþing. Það var boðað þegar hv. þingmenn, flutningsmenn þessa máls, lögðu fram þingsályktunartillöguna. Við vitum ekki enn hvað á að standa í því lagafrumvarpi sem á að fela í sér breytingar á lögum um stjórnlagaþing. (RM: … á morgun.)

Ég vildi vekja athygli á þessu. Ég heyrði ekki alveg ummæli hv. formanns allsherjarnefndar úr salnum, en kannski var hann að vísa til þess að málið yrði lagt fram á morgun, ég veit það ekki, það kann að vera. En það verður auðvitað forvitnilegt að sjá það mál.

Ég ætlaði að nefna í því samhengi að meðan þetta mál er hér enn til umfjöllunar og er óafgreitt tel ég að Alþingi ætti að stíga og gæti stigið eitt skref sem þyrfti ekki að taka langan tíma eða vera flókið og það væri að taka með skýrum hætti af skarið um það hvernig á að fara með skýrslu svokallaðrar stjórnlaganefndar. Bara til að útskýra það er stjórnlaganefnd einn liðurinn í þessu ferli öllu sem tiltölulega góð sátt hefur verið um og ekki mikill ágreiningur. Stjórnlaganefndin hefur starfað frá síðasta sumri og hefur eftir mínum bestu upplýsingum lokið starfi sínu. Skýrslur hennar hafa verið prentaðar og bíða nú þess hvað verður. Ég ætla að segja, hæstv. forseti, að ég legg til að meðan afdrif þessa máls sem (Forseti hringir.) hér liggur fyrir eru óljós taki Alþingi með einhverjum hætti skýrt af skarið um það að stjórnlaganefnd skuli gera skýrslur sínar opinberar.