Skipun stjórnlagaráðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 16:02:23 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:02]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum fullkomlega sammála um að Íslendingar eru vel læsir og þeim vel treystandi til að skilja tillögur til breytinga á stjórnarskránni. Það má ekki skilja mig sem svo að þeir séu það ekki. Ef þessu stjórnlagaráði, verði því komið á fót, tekst hins vegar að leggja fram tillögur að nýrri stjórnarskrá upp á kannski 80–90 greinar þá sé ég fyrir mér að þjóðaratkvæðagreiðsla, eins og sú sem hv. þingmaður leggur til að fari fram áður en þingið tekur málið til ákvörðunar, verði býsna víðfeðm og dálítið erfið í framkvæmd. Það var það sem ég átti við, verði tillögurnar margar. Ég átti líka við útfærsluna á tillögunni. Það sem kann að gerast við slíka atkvæðagreiðslu er að við sitjum hugsanlega að henni lokinni uppi með dálítið sundurlausa stjórnarskrá eða sundurlaust frumvarp að stjórnarskrá ef einstakir kaflar verða samþykktir en aðrir ekki. Ég vona að hv. þingmaðurinn skilji hvað ég á við, að lagt sé til að hluta stjórnarskrárinnar verði breytt en aðrir þættir standi óbreyttir eftir og passi þá ekkert endilega allt of vel við þær tillögur sem gerðar séu.

Ég varpa þessu bara fram vegna þeirrar tillögu sem hv. þingmaður talaði fyrir. Vandinn við hana er í mínum huga sá að þó að ég skilji alveg rökin fyrir henni hjá hv. þingmanni þá þvælist það svolítið fyrir mér að með tillögunni sé verið að fara aðra leið varðandi breytingar á stjórnarskránni en stjórnarskráin sjálf mælir fyrir um í sambandi við breytingar á sjálfri sér. Þarna er lögð til leið sem er ekki (Forseti hringir.) í beinu samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar eins og hún er.