Skipun stjórnlagaráðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 16:11:16 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek fram að ég hef ekki mótað mér afstöðu til þeirrar spurningar sem ég bar fram við hv. þm. Þór Saari um þetta efni. Það slær mig samt þannig, bara svo ég greini frá því við þessa umræðu, að mér sýnist að samspil þessarar tillögu og síðan laganna um þjóðaratkvæðagreiðslur, þar sem meðal annars er fjallað um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur, muni kalla á það að síðar, hugsanlega þegar stjórnlagaráð hefur lokið störfum ef það verður að veruleika, þurfi að leggja fram sérstakt þingmál þar sem kveðið er á um þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem meðal annars verði tekin afstaða til þeirra sjónarmiða sem eru reifuð í greinargerð með þessari tillögu, t.d. spurningar um það hvernig á að setja fram spurningar. Af greinargerðinni má ráða að ekki sé ætlunin að stilla þessu þannig upp að fólk segi einfaldlega já eða nei við tillögu til stjórnarskrár, heldur að það verði flokkað eða greint með einhverjum öðrum hætti. Án þess að við getum kannski farið út í það nánar, og án þess að ég hafi skoðað það í kjölinn, varpa ég því svona inn í umræðuna. Ég hugsa að þegar til kastanna kemur, verði þessi tillaga samþykkt og verði þingsályktunartillagan um stjórnlagaráðið samþykkt, þurfi engu að síður að fara með sérstakt mál inn í þingið þegar fram líða stundir.

Burtséð frá því vildi ég spyrja um annað. Það kann að vera að ég hafi misst af því hafi hv. þm. Þór Saari getið þess í sinni ræðu — hafi ég misst af því hér við umræðuna biðst ég nú afsökunar á því, en ég vildi engu að síður spyrja hv. þingmann hvort þessi breytingartillaga, eða sú breyting sem í henni felst, sé það mikilvæg í hans huga að hún sé einhvers konar úrslitaatriði varðandi það hvort hann getur fallist á þingsályktunartillöguna sjálfa?