Skipun stjórnlagaráðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 16:15:29 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:15]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er tíðkað þessa dagana og missirin að stunda umræðupólitík, endalausa umræðupólitík en ekkert gerist, engar ákvarðanir teknar, ekkert troll fer í sjó, enginn fiskur um borð og engin atvinnusköpun í neinu er lýtur að þjóðfélaginu í heild. Eitt starf skapaði hæstv. ríkisstjórn á Suðurnesjum þegar hún skipaði gamlan og góðan alþýðubandalagsmann sem forstöðumann herminjasafnsins á Keflavíkurflugvelli. Svo eyða menn tímanum í stjórnlagaþingsumræðu þó að úrskurður Hæstaréttar liggi fyrir.

Virðulegi forseti. Það er nú reyndar þannig, án þess að verið sé að mylja moðið í neinum efnum, að kosning til Alþingis, kosning alþingismanna er kjör á stjórnlagaþing. Þannig er lýðveldi okkar byggt upp og stjórnkerfið. Það á að vera hlutverk alþingismanna, sem eru fulltrúar fólksins í landinu, að véla um hvað þarf að leggja áherslu á og eðlilegt er að leita fanga til ýmissa átta til að skapa í umræðum og breytingum á stjórnarskrá það andrúm, þann metnað, þá stefnu og þann stíl sem Íslendingar vilja hafa sem lýðræðisþjóð, sjálfstæð þjóð, sjálfstætt Ísland.

Stjórnarskráin. Það er með ólíkindum hve margir hv. þingmenn tala um stjórnarskrána sem eitthvert bögglauppboðstæki sem getur bjargað öllu. Það er bara ekki þannig. Stjórnarskráin er auðvitað þáttur í þjóðfélaginu þar sem menn hafa komist að niðurstöðu um stefnu og þá verður að taka kúrsinn á stefnuna, keyra að stefnunni og fylgja henni eftir. Ef maður talar hispurslaust og af langri reynslu á vettvangi stjórnmála þá er í rauninni löngu tímabært að lagfæra ýmsa hluti í stjórnarskránni. Það þarf ekki að gera neinar stórkostlegar breytingar. Stjórnarskráin kemur í engu hruni við eða neinu slíku. Stjórnarskráin er hafin yfir slíkt og á að vera aðhald og styrkur til að styrkja grunn þjóðarinnar út frá ýmsum ástæðum. Það er til að mynda sjálfsagt að setja inn, og ég held að það sé ekkert deilumál, virðulegi forseti, og löngu tímabært að hnýta upp ákvæðið um eign Íslendinga á auðlindunum hvort sem það eru fiskimiðin eða aðrar auðlindir landsins. Það er grundvallaratriðið í því að við getum verið sjálfstæð þjóð að hafa það á hreinu. En vandasamt er að setja það inn og er ekki gert nema menn beri saman bækur, bæði stjórnmálamenn og sérfræðingar, í til að mynda stjórnsýslurétti og löggjöf vegna þess að það þarf að halda gagnvart öllum lögum og enginn efi sé í þeim efnum að þetta sé réttur Íslendinga um aldur og ævi meðan það stendur í stjórnarskrá Íslands.

Annað er að tryggja með meiri festu mikilvægi þess að Ísland sé fullkomlega sjálfstætt ríki og fullvalda í þeirri veröld sem nú er síbreytileg með fjölþjóðasamvinnunni sem fletur margt út í þessum efnum og eyðir sveitum, ættum, þjóðum og álfum. Flatlendið er í fyrirrúmi og gæta þarf þess að það hentar ekki Íslendingum að leggjast inn á flatlendisbrautir. Það er stíll Íslendinga að ríma á móti fjöllunum, ríma á móti því sem rís upp og skilar árangri.

Margir virðast halda að stjórnarskráin sé eins konar verðlisti, verðlisti frá stóru verslunarfyrirtæki og allar vörur í stafrófsröð og hægt sé að pikka út ákveðna hluti, ákveðin atriði þar sem er í gadda slegið. Þannig er engin stjórnarskrá. Hún byggir ekki á þeim þáttum. Það er almenn löggjöf landsins sem byggir á vilja og stefnu stjórnarskrárinnar, vilja fólksins í landinu og þá kemur að því að hnýta upp það sem kann að valda deilum í daglegu þrasi.

Það er nú svo, virðulegi forseti, að jafnvel hæstv. forsætisráðherra sniðgengur allt sem heitir virðing í þessum efnum við Alþingi, við lög, við störf reyndustu embættismanna, hvað þá almenna skynsemi fólksins í landinu með því að leggja til og stuðla að því að lög Hæstaréttar séu brotin, að gengið sé gegn vilja og niðurstöðu Hæstaréttar hvort sem menn eru sammála henni eða ekki, það skiptir ekki máli í þessu sambandi. Hæstv. forsætisráðherra sagði í þinginu 25. janúar sl., með leyfi forseta:

„Hugsanlega mætti líka veita Alþingi heimild með lögum til að kjósa 25 fulltrúa á stjórnlagaþingið, mögulega þá sömu og þjóðin hefur þegar kosið, meti Alþingi lýðræðislegt umboð þeirra fullnægjandi.“

Þetta er slík skvetta. Þetta er blaut og köld borðtuska í andlit lýðræðisins, í andlit Íslands, framan í Alþingi að hæstv. forsætisráðherra skuli leyfa sér að ganga þannig á skjön við niðurstöðu Hæstaréttar, setja Ísland á útsöluprís í virðingu fyrir lögum og lítillækka þannig íslenska samfélagið. Svo koma vikapiltarnir, vikapiltar hæstv. forsætisráðherra í kjölfarið, háskólamenn sem hafa verið á launum hjá stjórnvöldum og verið talsmenn þeirra, ekki í almennu hlutleysi eða almennri upptöku, heldur sem talsmenn stjórnmálaflokks.

Annar vikapilturinn af tveimur sem mest eru áberandi reið á vaðið daginn eftir að hæstv. ráðherra sagði það í þinginu sem ég vék að áðan, þ.e. Stefán Ólafsson, og taldi að af tveimur kostum væri skynsamlegt að fara þá leið sem hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, boðaði.

Hinn vikapilturinn, Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur, baðaði sömu vængjum og bar blak af forsætisráðherra, að vísu vantaði gersamlega flugfjaðrirnar og það eru slappir fuglar sem hafa misst þær, þeirra bíður ekki mikil framtíð og ekki verður hægt að gleðjast yfir glæsilegu flugi þeirra. En allt hjá hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum undir sérstakri forgöngu hæstv. forsætisráðherra er á þennan veg. Ganga á skjön við alla hluti, lög, hefð, rétt, meira að segja eins og síðasta dæmið er í jafnréttismálum þar sem hæstv. ráðherra hafði predikað ekki alls fyrir löngu að sá ráðherra sem mundi lenda í slíkri súpu sem nú er um að ræða ætti að segja af sér skilyrðislaust. Hverjar eru efndirnar? Efndirnar eru þær að sagt er: Þetta á bara ekki við mig. Þannig er stjórnin keyrð áfram með offorsi, hroka, sinnuleysi í öllum málum frá A til Ö og það er þess eðlis að slík stjórn á að víkja á stundinni. Hún vinnur skemmdarverk fyrir íslenska þjóð og það á ekki að vera ætlunarverk ríkisstjórnar Íslands.

Virðulegi forseti. Rætt hefur verið um að ákveðinn hópur svokallaðra stjórnlagaþingsmanna ætti að geta lagt fyrir þjóðina hugmyndir sínar. Hvað er raunhæft í svona málum? Hvað er skynsamlegt? Ætli sé ekki raunhæft og skynsamlegt að hvaða hópur sem vinnur slíka vinnu fyrir Alþingi eða fyrir íslenskt samfélag leggi gögn sín fyrir Alþingi, þar sem alþingismenn eiga að leggja lokahönd á að véla um hlutina í samstarfi og samráði við helstu stjórnsýslufræðinga Íslands? Þetta er ekki skyndimál. Þetta er engin pulsa með öllu. Þetta er stjórnarskrá Íslands sem á að vera ígrunduð á allan hátt. Við þurfum að hugsa um þetta, virðulegi forseti, þegar við ætlum að leggja hönd á plóginn og láta framkvæma endurskoðun á stjórnarskrá Íslands.

Það þýðir ekkert að vera með einhver ódýr auglýsingatilboð um að einhver, fólk úti í bæ eigi að koma að þessum hlutum. Það þarf að vinna þetta faglega og þeir sem hafa verið kjörnir til stjórnlagaþings eru fyrst og fremst alþingismenn Íslendinga. Þess vegna er sú tillaga sem hér um ræðir úrelt fyrir fram, hún er dónaskapur við samfélagið og hún speglar kannski einstaklega vel þann ótrúlega litla áhuga sem landsmenn höfðu á kosningum um stjórnlagaþing, þeim kosningum sem voru síðan dæmdar ógildar og er einsdæmi a.m.k. í vestrænum heimi að ríkisstjórn geti ekki einu sinni álpast til að ljúka kosningum án þess að klúðra þeim. En þetta er hlutur sem við þurfum að horfast í augu við og tryggja að gangi fram með eðlilegum hætti.

Það var líka, virðulegi forseti, áberandi í þessum kosningum að þeir sem fengu mest fylgi af fjölmörgum góðum frambjóðendum voru fjölmiðlaflibbar, þekktir úr þáttum í útvarpi og sjónvarpi sérstaklega, dekurbörn ákveðinna þátta þar sem aldrei er rætt við venjulegt fólk, aldrei, aldrei rætt við manninn sem vinnur verkin hvort sem það er til sjós eða lands. Að öllu jöfnu er rætt við sjálfskipaða sérfræðinga, sjálfskipaða skoðara og álitsgjafa sem hafa ákaflega litla reynslu og verkvit í flestu er lýtur að almennum þáttum íslensks þjóðfélags. Þeir búa yfir ágætisþekkingu á kenningum og babli af bók en blóðið streymir ekki í þeim líkömum, ekki frekar en fuglinn nái sér á flug sem vængfjaðrirnar vantar á.

Þetta, virðulegi forseti, undirstrikar það að þessi tillaga má ekki fá framgang. Það tefur bara tímann því að auðvitað kæmi aldrei til greina að láta greiða í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur frá hópi sem byggður er á niðurstöðu sem gengur gegn úrskurði Hæstaréttar Íslands. Auðvitað kæmi aldrei til greina að slíkur hópur gæti lagt tillögur sínar beint fyrir þjóðina. Það gætu í mesta lagi verið tillögur einhvers hagsmunahóps sem gæti hvar sem er komið upp í samfélaginu og sjálfsagt að hlusta á þær en ekki að sigla þeim fram nema með því að grandskoða þær með stjórnmálamönnum, alþingismönnum og stjórnsýslufræðingum.

Það er mjög einfalt mál í rauninni, virðulegi forseti, að láta sér detta í hug að þetta geti gengið þannig fyrir sig gegn vilja Hæstaréttar en það er gífurlegt dómgreindarleysi. Þess vegna vona ég, virðulegi forseti, að sú tillaga sem hér er til umræðu gegn réttarkerfinu í landinu, gegn eðlilegri viðmiðun, gegn þeim hæstv. forsætisráðherra og fylgifiskum hennar sem virða engin lög, enga hefð, engan metnað í okkar landi, verði ekki samþykkt. Það er mikið alvörumál að svona skuli koma upp. Slík mál koma oft og iðulega upp þegar upplausn verður í þjóðfélögum, í sveitarfélögum, í fyrirtækjum, í fjölskyldum. Þá er fjandinn laus, virðulegi forseti, og til verður alls konar uppspretta, óraunhæfar hugmyndir og óraunhæf vinnubrögð sem keyra gegn öllu því sem heitir eðlileg viðmiðun, eðlilegt brjóstvit, eðlileg reynsla, og gegn öllu sem kallar á leikgleði, drifkraft, metnað og þor. Það á að leika sér í skjóli upplausnarinnar með alls konar dynti og hugarkæki sem er ekki réttlætanlegt hjá stjórnmálamönnum, virðulegi forseti, frekar en öðru fólki í okkar landi. Við þetta erum við að glíma og við þurfum að komast frá þessu án þess að gera nú eitt klúðrið enn.