Skipun stjórnlagaráðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 16:37:39 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:37]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Fullveldi ríkis er ákaflega vandmeðfarið fjöregg. Hæstv. forseti vor benti á í áramótaræðu fyrir tveimur árum að menn yrðu að fara mjög varlega í því að fjalla um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið vegna þess að það gæti riðið þjóðarsátt að fullu. Ef þjóð klofnar um grundvallaratriði, um það hvort hún vill vera Íslendingur eða Tyrki er ekki gott að spá í framtíðina. En auðvitað er ekki hægt að afsala sér fullveldi nema þá, eins og menn kalla það, kannski með auknum meiri hluta, sem ég ætla ekki að fjalla um núna í stuttu svari.

Auðlindir hafsins, fiskimiðin, vatnið, gufan, hitasvæðin og landið sjálft sem er ræktað og er auðlind, eru auðlindir okkur. Mannreynslan, fólkið sjálft. Bara á síðustu öld fórust 500 sjómenn við Vestmannaeyjar einar, fimm á ári. Það er gífurleg blóðtaka. Það er alveg rétt að þekkingin og reynslan hafa breytt þessum verðmætum okkar í nýtanlega hluti sem byggja upp velferðarkerfið en auðvitað er alveg klárt mál að við getum aldrei gengið inn í neitt samfélag eða samflot með öðrum þjóðum nema að tryggja það (Forseti hringir.) um aldur og ævi að Ísland ráði yfir auðlindum sínum. Þar er ekki hægt að gefa neinn útsöluafslátt.