Skipun stjórnlagaráðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 17:51:29 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé ekki farinn að gera mig að stuðningsmanni þessa máls. Af því að ég var ekki að byrja hér í gær leyfi ég mér að spá fyrir um hver þróun mála verður. Ég vil ekki trúa því að það sé almennt þannig að stjórnarliðar geri þetta með glöðu geði, en mér sýnist að sumir hafi fengið leyfi til að stökkva frá borði vegna þess að ýmsir stjórnarandstæðingar ætla að greiða þessu atkvæði eftir því sem ég best veit. Eftir því sem ég best veit ætla þingmenn Hreyfingarinnar og einhver hluti Framsóknarflokksins að greiða atkvæði með þessu sem gerir það að verkum að einhverjir stjórnarliðar geta verið rödd skynseminnar í þessu máli, niðurstaðan verður sú að málið fer í gegn hvort heldur sem er.

Til þess að enginn misskilji mig vil ég hvetja stjórnarliða sem aðra þingmenn til að sjá að sér, draga andann djúpt og hugsa þetta mál. Það er hvorki meira né minna en stjórnarskráin sem er undir. Menn geta alveg sagt sem svo að einungis sé um að ræða hóp manna sem leggi fram tillögur, en við eigum að fara fram með varúð og aðallega virðingu, skulum við segja, þegar við nálgumst þetta mál. Þetta snýst ekki bara um stjórnarskrá lýðveldisins, þetta snýst líka um fjármuni almennings. Og af þeim er ekki nóg eins og við öll vitum.