Skipun stjórnlagaráðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 17:54:47 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann að meta bjartsýni hv. þingmanns. Auðvitað eigum við að vera bjartsýn alveg þar til niðurstaða er komin í málið. Ástæðan fyrir því að við erum að fara yfir þetta mál er sú að við erum að vekja athygli á hinum augljósu göllum þess. Vonandi verður það til þess að fleiri munu sjá að sér. Á þessum tímapunkti kæmi það mér skemmtilega á óvart ef niðurstaðan yrði á þann veg sem við vildum. Ég held að vísu að það færi afskaplega vel á því vegna þess að ekki hafa komið fram nein sterk rök fyrir því að fara þessa leið. Ég dró í ræðu minni upp það sem ég hef fundið frá aðilum sem hafa verið að tjá sig um málið utan þessara veggja. Það verður að segjast eins og er að þau rök sem dregin hafa verið fram fyrir því að klára málið eru ekki sterk, þau eru í raun rök gegn því að fara með það eins og lagt er upp með.

Ég er sannfærður um að ef stjórnarliðar ákvæðu að skoða málið betur og reyna að finna skynsamlega lausn á því fengju þeir mikinn plús hjá almenningi. Ég held að almenningur í þessu landi sé að bíða eftir því að hv. þingmenn, sama í hvaða flokki þeir eru, vinni saman að málum eins og þessu og láti málefnin, skynsemina og rökin ráða en ekki blinda flokkshollustu. Ég get ekki séð neina aðra ástæðu fyrir því að þetta mál sé klárað þrátt fyrir þá augljósu galla sem farið hefur verið yfir hér í dag en að um sé að ræða blinda flokkshollustu.