Almenningsbókasöfn

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 18:12:52 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

almenningsbókasöfn.

580. mál
[18:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Tilefni þess frumvarps sem ég fylgi hér úr hlaði er það að í nýlegu áliti hefur umboðsmaður Alþingis komist að þeirri niðurstöðu að reglur Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um innheimtu sekta vegna vanskila á bókum hafi ekki haft nægilega lagastoð. Má finna þetta álit í máli nr. 6010/2010. Brugðist var við því áliti umboðsmanns af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis með því að gera breytingu á reglugerð um safnið en hins vegar mátti draga þá ályktun af áliti umboðsmanns í þessu máli að hliðstæð gjaldtaka af notendum almenningsbókasafna hvíldi á veikum grunni þrátt fyrir áratugalanga hefð fyrir slíkri gjaldtöku í góðri sátt við notendur almenningsbókasafna.

Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis funduðu af þessu tilefni í janúar síðastliðnum með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga um lögfestingu gjaldtökuheimilda til handa almenningsbókasöfnum. Voru fulltrúar sambandsins þess mjög hvetjandi að slíkar heimildir yrðu settar í lög hið fyrsta og sendu ráðuneytinu formlegt erindi þess efnis.

Í gildandi lögum um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997, hafa til þessa ekki verið nein ákvæði um gjaldtökuheimildir handa þeim söfnum. Þrátt fyrir það, eins og við öll þekkjum í þessum sal, er löng hefð fyrir gjaldtöku almenningsbókasafna, m.a. hóflegt gjald fyrir útlánaskírteini og gjaldtöku ef kemur til vanskila á bókum, og lengst af hefur verið almenn sátt í samfélaginu um slíka gjaldtöku og hún ekki valdið vandkvæðum í samskiptum bókasafnanna og almennings.

Undanfarin ár hefur hins vegar orðið allmikil breyting á viðhorfum í þjóðfélaginu til slíkra mála og réttarþróun, ef við lítum til hennar, hefur verið á þann veg að gera ríkari kröfur en áður um lagalegan grundvöll gjaldtöku á öllum sviðum.

Öllum sveitarfélögum er skylt samkvæmt lögum að standa að þjónustu almenningsbókasafna. Sveitarfélög hafa eðlilega litið á það sem mikilvægt verkefni að gera það með sem bestum hætti, enda mjög mikilvægar stofnanir til að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum og að sjálfsögðu ýmiss konar lesefni. Því er eðlilegt að fyrrgreint álit umboðsmanns valdi áhyggjum meðal forsvarsmanna sveitarfélaga og þeir kalli eftir því að skýr gjaldtökuheimild verði sett í lög um almenningsbókasöfn.

Nú er frá því að segja að árið 2003 skipaði þáverandi menntamálaráðherra nefnd sem falið var að kanna hagkvæmni þess að setja heildarlög sem tækju til allra tegunda bókasafna, en í nefndinni sátu m.a. fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúar Samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna. Nefndin skilaði af sér árið 2004 og lagði fram þrjár tillögur að nýjum frumvörpum á þessu sviði. Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu á þeim tíma að heppilegast væri að setja ein heildarlög um starfsemi almenningsbókasafna, skólabókasafna og Blindrabókasafns Íslands. Þess var óskað að nefndin endurskoðaði tillögur sínar með tilliti til þess að sett yrðu ein heildarlög um bókasafnamál.

Nefndin skilaði ráðuneytinu tillögu þar að lútandi haustið 2006. Unnið var áfram að drögum að frumvarpi innan ráðuneytis til ársins 2008 en þau hafa hins vegar ekki verið endurskoðuð frá þeim tíma í ljósi breyttra aðstæðna, t.d. nýrra laga um grunn- og framhaldsskóla, eða í ljósi frumvarps til nýrra laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem ég vonast til að geta mælt fyrir á yfirstandandi þingi. Meðal þeirra breytinga sem liggja fyrir í drögum að því frumvarpi, þ.e. frumvarpi til heildarlaga um málefni bókasafna, er auðvitað að setja lagastoð fyrir gjaldtöku vegna útlánaþjónustu, afritunar og fjölfjöldunar og jafnframt verði bókasöfnum gert kleift að setja reglur um gjöld vegna óheimilla afnota af safnkosti og innheimtu bóta vegna safnefnis sem glatast í meðförum notenda. Enn er unnið að þessum heildarlögum en ekki er tímabært að leggja fram það frumvarp á þessu þingi, en hins vegar með vísan til þess að þessi tillaga er gerð í þeim drögum sem þar liggja fyrir og svo fyrrnefnds álits umboðsmanns Alþingis er ekki óeðlilegt að leggja til að þessi heimild verði sett nú þegar í lög um almenningsbókasöfn.

Rétt er að benda á að það mun fyrirsjáanlega hafa miklar og neikvæðar afleiðingar fyrir rekstur almenningsbókasafna ef núverandi ástand dregst á langinn þar sem söfnin kunna jafnvel að neyðast til að hætta innheimtu gjalda sem hefur tíðkast um árabil. Það mundi að sjálfsögðu þýða tekjusamdrátt almenningsbókasafna um land allt sem næmi samanlagt milljónatugum á ársgrundvelli og gæti bitnað harkalega á þjónustu þeirra, auk þess sem engin úrræði væru til að tryggja þeim endurheimtur safnkosts sem lánaður er út. Slíkur samdráttur í ráðstöfunarfé almenningsbókasafna mundi skyggja verulega á þá jákvæðu þróun sem orðið hefur á undanförnum þremur árum þar sem eftirspurn eftir þjónustu þeirra og nýting safnkostsins hefur vaxið ár frá ári.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hafa almenningsbókasöfn og starfsfólk þeirra verið í stakk búin til að svara væntingum notenda með jákvæðum hætti í þrengingum undanfarinna ára. Þar er um verulegan árangur að ræða og alls ekki sjálfsagðan að teknu tilliti til aðstæðna í fjármálum sveitarfélaga, en það má segja sem svo að bókasöfnin hafi í raun og veru virkað sem hjörtu í sínum samfélögum og mikilvægur samkomustaður og menningarmiðstöðvar. Miklu skiptir að til þess sé litið líka þegar þetta frumvarp er tekið til skoðunar.

Það hefur verið markmið sveitarfélaga að gjaldtaka vegna þjónustu almenningsbókasafna sé hófleg og að notendur upplifi hana ekki sem íþyngjandi. Ef við skoðum gjaldskrá stærsta almenningsbókasafnsins, sem er Borgarbókasafn Reykjavíkur, kostar ársskírteinið þar 1.500 kr., en börn og unglingar undir 18 ára aldri, eldri borgarar og öryrkjar greiða ekki fyrir skírteini. Dagsektir eru hóflegar og verða að hámarki frá 500 kr. til 4.000 kr. eftir aðstæðum. Má vænta þess að gjaldskrár annarra almenningsbókasafna séu sambærilegar.

Þess er ekki vænst að hækkun eiginlegra þjónustugjalda fylgi í kjölfar lagabreytingar á þessu sviði, enda eru bókasöfn mikilvæg almannaþjónusta sem sveitarfélög hafa lagt metnað í að byggja upp. Fjárhæðir bóta og sekta hafa til þessa fyrst og fremst verið ákveðnar út frá skaðleysis- og varnaðarsjónarmiðum og er þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til ekki ætlað að hafa áhrif á þær upphæðir.

Með vísan til þess sem að framan er rakið má ætla að lögfesting frumvarpsins hafi jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélaga en ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Að lokum er rétt að taka fram að þessi tillaga um breytingu á lögum um almenningsbókasöfn hefur verið undirbúin í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga sem styður þessa breytingu.

Ég legg til að þetta frumvarp gangi að lokinni 1. umr. til hv. menntamálanefndar.