Hagþjónusta landbúnaðarins o.fl.

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 18:34:24 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

Hagþjónusta landbúnaðarins o.fl.

572. mál
[18:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að áfram er gert ráð fyrir því að þessi verkefni verði unnin. Svo sannarlega stendur minn hugur til þess að þau verði áfram unnin að meginþorra við Landbúnaðarháskólann og svo annars staðar úti á landi eftir því sem við á en að fyrst verði leitað samninga við Landbúnaðarháskólann.

Það er tilgreint hvað þetta getur kostað og að markmiðið sé að þetta hafi ekki áhrif á starfsemina og verkefnin. Það er í rauninni ekki hægt að lofa meiru því að það ræðst af fjárlagaafgreiðslunni á hverjum tíma. Þó að menn lofi því í einhverjum frumvörpum að taka kostnaðinn, eins og hv. þingmaður minntist á, vegna annarra stofnana getur það ekki verið nema áform því að það er afgreitt í fjárlögum á hverjum tíma. Það getur enginn lofað þannig upp í ermina á sér nema við afgreiðslu fjárlaga, svo að það sé tekið hér skýrt fram.

Nefndin fær þetta mál til meðferðar og ég treysti því að hún afli gagna, umsagna og álita um þær tillögu sem ráðherra leggur fram en kannski enn frekar að hún standi vörð um verkefnin þannig að þeim verði sinnt og að tilgangur frumvarpsins um að efla þessa starfsemi, þó að með öðrum hætti sé, nái fram að ganga.