Heilbrigðisstarfsmenn

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 18:47:49 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

heilbrigðisstarfsmenn.

575. mál
[18:47]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga í sambandi við frumvarpið en áskil mér að sjálfsögðu rétt til að gera ítarlegar grein fyrir sjónarmiðum mínum við 2. umr.

Spurningarnar varða annars vegar 3. gr. frumvarpsins og hins vegar 11. gr. Í 3. gr. eru taldar upp löggiltar heilbrigðisstéttir, m.a. fimm stéttir sem hafa með matvæli og næringu að gera. Ég velti því fyrir mér hvort upptalningin sé ekki óþarflega ítarleg og hvort rætt hafi verið í ráðuneytinu að reyna hreinlega að minnka listann umtalsvert. Það má velta fyrir sér af hverju þarna eru bæði matartæknar og matvælafræðingar, næringarfræðingar og næringarráðgjafar en síðan eru bara nefndir sálfræðingar en ekki til að mynda taugasálfræðingar.

Hin spurningin sem ég hef varðar 11. gr. um tímabundið starfsleyfi. Sérstaklega er tekið fram að læknanemar geti fengið slíkt leyfi. Ég sakna þess að sjá ekki þar inni einhvers konar ákvæði um þessa heimild fyrir aðra, ég átta mig ekki alveg á því, og mér finnst ekki alveg nógu skýrt ákvæði um að menn verði undantekningarlaust að starfa undir stjórn annarra heilbrigðisstarfsmanna þótt þess sé getið síðar í lagagreininni.