Heilbrigðisstarfsmenn

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 18:49:52 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

heilbrigðisstarfsmenn.

575. mál
[18:49]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að í þeirri miklu umfjöllun og vinnu sem hefur átt sér stað hefur verið töluverð togstreita um einmitt þær stéttir sem taldar eru upp í 3. gr. Réttilega hefur verið bent á að þar séu 33 starfsgreinar taldar upp og þarna er farið aðeins yfir á svið sem snýst kannski frekar um matvælaframleiðslu en lækningar í sjálfu sér. Þetta skarast auðvitað vegna þess að læknar og sérfræðingar fylgja eftir matvælaöryggi.

Ég kann í sjálfu sér ekki betra svar við þessu en að þetta sé niðurstaðan sem varð úr þessari vinnu. Það verður auðvitað verkefni hv. þingmanns og þeirra sem sitja í heilbrigðisnefnd að fjalla betur um hvort þetta sé endanlegur og réttur listi. Þarna voru ekki gerðar miklar breytingar heldur er meira og minna verið að færa saman á einn stað lög og reglugerðir sem áður voru til og setja utan um það rammalög til að geta síðan sett nánari reglugerðir um einstaka þætti.

Sama gildir um tímabundið starfsleyfi. Þar eru læknanemar tilgreindir og kann að vera að ekki sé nógu skýrt hverjir aðrir geti fengið slíkt leyfi. Í ræðunni áðan kom fram að eitt af markmiðunum með lögunum sé að tilgreina nánar hverjir hafi leyfi til að hafa undirmenn — eða ef við snúum þessu við, hverjir þurfa að starfa undir stjórn einhvers annars. Eins og víða er ekki hægt að starfa öðruvísi en samkvæmt leyfisveitingu eða tilvísunum frá læknum. Markmið laganna er einmitt að fjalla betur um það. Ef einhverjir ákveðnir þættir málsins eru ekki nægjanlega skýrir treysti ég á að hv. heilbrigðisnefnd taki betur á því.