Húsnæðismál

Fimmtudaginn 24. mars 2011, kl. 16:56:48 (0)


139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[16:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér við 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál með síðari breytingum. Hér er verið að fylgja eftir því samkomulagi sem náðist um 110%-leiðina svokölluðu, þ.e. að lán sem væru yfir 110% af mati eða verðmæti fasteignar skyldu afskrifuð, það sem umfram er. Hér kemur í ljós að þetta mun kosta skattgreiðendur 15 milljarða og þetta er eiginlega versta leiðin til að setja peninga í eitthvað þannig að það hafi efnahagsleg áhrif vegna þess að þetta lækkar eingöngu skuldirnar og það þýðir að fólk borgar þá kannski minna í 20, 30 eða 40 ár. Efnahagslegu áhrifin koma fram á þeim tíma, það gerist mjög hægt.

Ef ég ætti 15 milljarða, sem hér er verið að ráðstafa úr ríkissjóði úr vösum skattgreiðenda, og ætlaði virkilega að gera eitthvað gott, ekki vera að lækka skuldir þeirra sem ekki þurfa á því að halda, þá mundi ég hækka atvinnuleysisbætur, ég mundi byrja á því. Ég mundi t.d. hækka atvinnuleysisbætur fyrir hvern mann upp á milljón á ári, það kostar einmitt 15 milljarða, og það færi beint í æð. Það færi beint í æð inn í atvinnulífið, það fólk gæti þá borgað af lánunum sínum, það gæti þá borgað eðlilegan lífskostnað, við rekstur heimilis o.s.frv., það væri miklu hraðvirkari og betri leið til að ráðstafa þessum peningum.

Ég mundi kannski ekki setja þetta allt í atvinnuleysisbætur. Ég mundi nefnilega skoða stöðu leigjenda sem ekkert hefur verið horft á. Það er meira að segja verið að skerða húsaleigubætur. Þar er verið að setja miklu minni peninga inn í kerfið, samt eru leigjendur 20% af þjóðinni. Það er talað um 24–26%, það veit reyndar enginn hvað leigjendur eru margir, frú forseti, menn vita bara að þeir eru þarna. Það veit heldur enginn hvernig staða þeirra er. En þeir borga flestir verðtryggða leigu. Ef leigjendur verða atvinnulausir þá bara missa þeir íbúðina af því að þeir geta ekki borgað. Það virðist enginn hafa áhyggjur af því hér á Alþingi, ekki nokkur einasti maður, hvað verður um það fólk. Hvað gerir einstæð móðir með tvö börn ef hún verður atvinnulaus og býr í leiguhúsnæði? Það hefur enginn áhuga á því, ekki neinn. Það er aldrei talað um það. Það er alltaf verið að tala um skuldir og niðurfellingu þeirra af því að það eru hagsmunahópar sem eru sterkir. En sem sagt ef ég ætti 15 milljarða, svo ég tali nú ekki um 21 milljarð sem þetta kostar allt saman, þ.e. þessi 110%-leið, mundi ég ráðstafa því öðruvísi af því ég tel að það yrði miklu réttlátara, og það á að hjálpa fólki sem virkilega þarf á því að halda, og það færi beint í æð en ekki svona hægt eins og hér er raunin.

En ríkisstjórnin er ásamt bönkunum, fjármagnsstofnunum og öðrum búin að fara út í þessar almennu aðgerðir, sem er 110%-leiðin, og hún mun örugglega hjálpa mörgum sem eru komnir með neikvæða eiginfjárstöðu. Það kom reyndar fram í starfi hv. félagsmálanefndar að 70% af þessum ráðstöfunum fara til íbúða úti á landi. Þar er nefnilega allt annað vandamál sem hefur verið við lýði í 30, 40 eða 50 ár, sem felst í því að byggingarkostnaður úti á landi er miklu hærri en markaðsverðið — þ.e. sá sem byggir og fær lánað til bygginga á húsi úti á landi frá Íbúðalánasjóði, segjum fyrir 20 milljónir eða 18 milljónir sem er hámarkið hjá Íbúðalánasjóði — daginn eftir að hann flytur inn í húsið getur hann selt það á 10. Það þýðir að veðsetningin er allt í einu farin upp í nærri 200% og nú á að fara að klippa það af. Það má vel vera að það sé réttlátt, en af hverju er verið að gera það einmitt núna þegar ríkissjóður er svo fjárþurfi og í vandræðum, þá er verið að leysa þennan vanda landsbyggðarinnar sem hefur verið hrópandi í áratugi og ég hef bent á í 10 ár. Ég hef verið að benda á þennan vanda í 10 ár en það heyrði það heldur enginn af því þetta var vandi úti á landi, landsbyggðarvandi.

Mér finnst þetta því vera sorglega leiðinlegar aðgerðir. Þær fara umræðulaust í gegn, kosta óhemjufé; ráðstafanir eins og heildarkostnaðurinn á Íbúðalánasjóði eru 48 milljarðar. Það eru 400 þúsund á hverja fjölskyldu í landinu, hverja einustu fjölskyldu í landinu. Þetta skal hún greiða. Mitt í öllum skattahækkunum og öllum niðurfellingunum og öllu atvinnuleysinu og öllu því þá er þetta lagt á. Vissulega er þörf á sumu, t.d. leigufélögin og allt það eru bara gjaldþrota, Íbúðalánasjóður verður að afskrifa það, það verður ekki hjá því komist. Það var farið út í þá stefnu á sínum tíma að lána til leigufélaga. Ég reyndar gagnrýndi það mjög í hv. félagsmálanefnd að það yrði gert af því ég vildi fá miklu meiri tryggingar fyrir því að þetta yrði greitt og að eitthvað væri á bak við þetta.

Það sem 110%-leiðin kostar er eins og kom fram hjá hv. framsögumanni nefndarálits meiri hlutans — það sem er umfram það er tapað hvort sem er. Það er verið að hjálpa fólki sem þarf ekki endilega á því að halda, það gæti búið áfram í íbúðunum sínum, það gæti borgað áfram af lánunum sínum og lánin eru meira að segja flest í skilum. Þannig að þetta er afskaplega sorglegt dæmi um rangar ráðstafanir hæstv. ríkisstjórnar og bankanna og þeirra aðila sem stóðu að þessu. Þeir stóðu ekki í lappirnar gegn þeim þrýstingi hagsmunaaðila, manna sem vildu lækka skuldirnar sínar. Hver vill ekki lækka skuldirnar sínar?

Við ræðum hér framhaldsnefndarálit og þar kemur fram hver ekki er mættur á fundinn og hverjir skrifa undir nefndarálitið. Að venju kemur ekki fram hverjir eru mættir og skrifa ekki undir nefndarálitið. Ég vildi fá að pota nafninu mínu þarna inn og þá hefði verið sagt að ég hefði verið viðstaddur en ekki samþykkt nefndarálitið, en það er víst einhver hefð fyrir því að það megi ekki. Af því ég vildi nú ekki vera að skrifa heilt nefndarálit út af þessum athugasemdum mínum er þetta nú þannig að nafnið mitt kemur hvergi fram í þessu eins og ég hafi bara ekkert verið í nefndinni og komi málið ekki við.

Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta. Það er ekki mikið meira um þetta að segja. Það er verið að ráðstafa þarna gífurlegum fjármunum úr vasa skattgreiðenda og að mínu mati hefði mátt ráðstafa þeim nú sem stendur á miklu félagslegri, réttlátari og sanngjarnari hátt til fólks sem virkilega þarf á því að halda. En það er ekki verið að horfa mikið til leigjenda og það er ekki verið að horfa mikið til atvinnuleysingja.