Afnám gjaldeyrishafta

Mánudaginn 28. mars 2011, kl. 15:10:30 (0)


139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:10]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Í síðustu viku skilaði Seðlabanki Íslands skýrslu til efnahags- og viðskiptaráðherra um áætlun um losun gjaldeyrishafta og þótt fyrr hefði verið að mati okkar framsóknarmanna. Í þessari skýrslu er kveðið á um það að losa Íslendinga við þessi höft á fjórum til fimm árum. Ég var ánægður með að sjá að í þessari skýrslu er m.a. vikið að hugmyndum sem við framsóknarmenn lögðum fram í efnahagstillögum okkar fyrir rúmum tveimur árum og kváðu á um að uppboðsmarkaður skyldi stofnaður hjá Seðlabankanum með gjaldeyri og að veita lífeyrissjóðum eða fjármálastofnunum sérstaka heimild til kaupa á krónum.

Við höfum talað fyrir því að fara þyrfti hraðar í áætlun um afnám á losun gjaldeyrishafta en ríkisstjórnin hefur boðað. Nú væri fróðlegt fyrir okkur að heyra hver framtíðarsýn hæstv. fjármálaráðherra er um losun á gjaldeyrishöftum. Það er ljóst að ef þessi gjaldeyrishöft munu vara svo árum skiptir enn mun það hamla fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, það mun þá leiða til þess að atvinnuuppbygging verður mun hægari en við hefðum viljað sjá. Ég minni á að 14 þúsund Íslendingar eru án atvinnu í dag og við þurfum þess vegna stjórnvöld sem ætla að beita sér fyrir því með stórvirkum og skjótvirkum hætti að losa íslenskt samfélag úr viðjum hafta.

Það er spurning hvort ríkisstjórnin gangi í takt í þessu máli þegar kemur að framtíðarsýn er varðar þessi málefni en ég brýni okkur öll í að vinna sem einn maður að því að losa um gjaldeyrishöftin, stuðla að aukinni fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, fjölga þannig störfum, auka tekjur ríkissjóðs og minnka atvinnuleysið. Þetta þurfum við að gera og á að vera verkefni okkar í dag. Þess vegna væri ágætt (Forseti hringir.) að heyra hjá hæstv. fjármálaráðherra um sýn hans á þetta mikilvæga mál.