Aðild NATO að hernaði í Líbíu

Mánudaginn 28. mars 2011, kl. 15:23:40 (0)


139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

aðild NATO að hernaði í Líbíu.

[15:23]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mér þykja það mjög athyglisverð tíðindi sem koma fram í svari hæstv. fjármálaráðherra. Það var ekki hálf ríkisstjórn Íslands sem tók þessa ákvörðun í Norður-Atlantshafsráðinu í gær, ekki voru gerðir neinir fyrirvarar eftir því sem fram hefur komið í fjölmiðlum. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort þeir hafi bókað einhvern fyrirvara. Það er einfaldlega þannig að ef enginn fyrirvari er gerður af hálfu ríkisstjórnar Íslands í þessu ágæta ráði er litið svo á að ríkisstjórnin standi einhuga að baki ákvörðuninni.

Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra upplýst að hann hafi ekki verið spurður. Það þykja mér tíðindi vegna þess að það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, það er oft einfaldara að hefja stríð en að ljúka þeim. En þarna hafði Vinstri hreyfingin – grænt framboð (Forseti hringir.) tækifæri til þess að hafa áhrif á það að ríkisstjórn Íslands mundi beita neitunarvaldi sínu innan Norður-Atlantshafsráðsins (Forseti hringir.) sem hún gerði ekki. Því vekur þetta svar hæstv. fjármálaráðherra mikla furðu.