Endurreisn íslenska bankakerfisins

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 11:23:59 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:23]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Því miður njóta íslensku bankarnir ekki trausts. Það eru kannski þrjú meginvandamál sem við erum að glíma við í landi okkar í dag; ríkisstjórnin, bankarnir og fjölmiðlar. Við erum núna að fjalla um bankana sérstaklega og þar var valin sú leið sem kom fram í ræðu hv. frumflytjanda, það var tjaslað upp á gömlu rústirnar. Því miður sjá menn enn mörg sömu andlitin í bönkunum, sömu andlitin og lokkuðu fólk til að ganga villt vegar í þágu fjármagnseigendanna og síðan á þetta sama fólk að vekja trúnað á ný í bankakerfinu þegar búið er að hafa af öldnum sem yngri stórkostlegar fjárhæðir.

Vandamálið er fyrst og fremst það að stjórnvöld láta reka á reiðanum og eftir höfðinu dansa limirnir. Það er grundvallaratriði að setja tímamörk á að afgreiða þá uppsöfnun sem hefur átt sér stað og þar hefur hæstv. ríkisstjórn ekki staðið í stykkinu. Það er enn þá verið að mismuna fyrirtækjum og heimilum og taka geðþóttaákvarðanir í bankakerfinu sem eru gjörsamlega óþolandi þannig að báturinn ruggar og ruggar og ruggar. Það verður að tryggja sem fyrst að réttur heimilanna og fyrirtækjanna gangi fyrir, en ekki réttur fjármagnseigendanna eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra á undan.