Endurreisn íslenska bankakerfisins

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 11:28:21 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:28]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa þörfu umræðu um endurreisn bankakerfisins og vil byrja á að velta upp spurningunni: Fyrir hvern er bankakerfið? Mér hefur fundist íslensk stjórnvöld vera að endurbyggja kerfið úr fúnum spýtum í allt of svipaðri mynd og það var áður. Nú finnst mér við sitja uppi með lasið kerfi sem þjónar hvorki heimilunum né fyrirtækjunum. Við upplifum að við getum okkur hvergi hreyft án þess að það sé hætta á öðru hruni. Okkur er sagt að fyrningarleiðin sé ófær því að þá falli Landsbankinn. Stjórnvöldum er talin trú um að ekki sé hægt að leiðrétta skuldir heimilanna án þess að bankakerfið riði til falls. Til hvers erum við með kerfi sem vinnur gegn fólki og fyrirtækjum, kerfi sem sýgur til sín fjármagn og orku og heldur öllu í járngreipum? Ég spyr: Er ekki kominn tími til að endurskoða það sem við erum að gera? Er ekki kominn tími til að laga kerfið að íbúunum og láta það þjóna heimilum og fyrirtækjum í stað þess að stór hluti íslensku þjóðarinnar sé þrælar fjármálafyrirtækja? Er ekki kominn tími til að stöðva gegndarlausa og siðlausa eignaupptöku fjármálafyrirtækjanna? Er ekki kominn tími til þess að við lærum af mistökunum og förum í róttækar breytingar?