Endurreisn íslenska bankakerfisins

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 11:30:13 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:30]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. frummælanda og þakka henni fyrir frumkvæðið að þessari umræðu. Bankakerfið var endurreist í nánast óbreyttri mynd í þágu kröfuhafa, fjármagnseigenda, og í þeirri von að geta staðið undir ábyrgðaryfirlýsingum um að tryggja innstæður í bönkunum. Vonandi gengur það eftir en upplýsingar sem við fengum í viðskiptanefnd á fundum hafa ekki veitt manni traustan grunn til að álykta að svo verði, því miður.

Það var einn ríkisbanki og tveir í einkaeigu og við endurreisnina féll Vinstri hreyfingin – grænt framboð frá þeirri skoðun sinni og stefnu að þriðjungshluti í bönkunum yrði í eigu ríkisins. Hluta bankakerfisins er verulega ógnað og þá á ég við starfsgrundvöll sparisjóðanna. Af þeim hef ég verulegar áhyggjur ef ekki verða þegar í stað gerðar úrbætur, ráðstafanir um samstarf o.fl. eftir að Sparisjóðurinn í Keflavík féll. Það er mjög nauðsynlegt að komið verði upp sameiginlegri millibankaþjónustu, tölvukerfi og öðru slíku, ella eru starfandi sparisjóðir í mikilli hættu. Falli þeir er það þvert á stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Ég vil nefna að viðskiptanefnd fékk á fund sinn talsmenn bankanna, bankastjóra, forstjóra og stjórnendur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Þær upplýsingar sem þar komu fram, eða upplýsingaleysið, varð ekki til að létta af mér þeim áhyggjum sem ég hef af framtíð bankakerfisins. Það olli mér líka miklum vonbrigðum að hvorki Fjármálaeftirlitið né Seðlabanki Íslands og aðrir hafi farið eftir tillögum og tilmælum sem komu fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem Alþingi samþykkti samhljóða. Þar á ég við samstarf Seðlabankans við mat á eignum, forsendur mats á eignum, rafrænan úrlestur úr upplýsingum frá bönkunum og margt fleira og enn hefur ekki verið undirbúin áætlun varðandi þá vá sem kann að steðja að bankakerfinu.